Sítruskollur

kollur_500s6630

Það er eitthvað við orðskrípið ‘bollakökur’ sem fer alveg óstjórnlega í taugarnar á mér! Mér finnst það óþjált og eiginlega bara með hallærislegustu beinþýðingum sem hafa troðið sér inn í íslenskt mál. Sem betur fer á ég vini sem er annt um málið og komu mér til bjargar þegar ég lýsti eftir betri þýðingu á cupcakes. Kollukökur! Kollur í daglegu tali.  Og upp frá því hef ég alltaf talað um kollur og vonandi tekur þú þetta upp núna þegar þú hefur fundið þetta snilldarnýyrði!

‘Múffa’ er svo annar handleggur, það þarf að leggjast yfir það við tækifæri… Einhverjar tillögur?!

Í dag er boðið upp á tvöfaldan skammt af kollukökum; appelsínu og lime. Þessar eru alveg dásamlegar á köldum vetrardegi þegar mann langar í smá bragð af sumri og sól!

Þetta er í raun sama grunnuppskriftin, bragðbætt á tvo mismunandi vegu svo það er hægt að velja hvort maður gerir aðra tegundina í einu eða skiptir deiginu í tvennt og gerir báðar. Tvær kremuppskriftir setja svo punktinn yfir i-ið og sjá um að koma sólarbragðinu til skila.

Appelsínu- og limekollur
125 g smjör
130 g sykur
1 tsk vanilludropar
2 egg
180 g hveiti
1 tsk lyftiduft

Fyrir appelsínukollur (1 uppskrift): safi úr 1 appelsínu eða 1 dl hreinn appelsínusafi. Ca. 1 tsk appelsínubörkur, rifinn á fínu rifjárni.

Fyrir limekollur (1 uppskrift): safi úr 1 1/2 lime og börkur af 1/2, rifinn á fínu rifjárni

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 180°C
 2. Hrærið saman smjör og sykur í hrærivél eða handþeytara.
 3. Brjótið eggin útí, eitt í einu og hrærið vel eftir að síðara er komið í.
 4. Setjið vanilludropana útí á eftir síðara egginu.
 5. Sigtið saman hveiti og lyftiduft og hrærið varlega samanvið.
 6. Hrærið safa og börk saman við. Ef ætlunin er að baka báðar tegundir, skiptið þá deiginu í tvennt og hrærið appelsínusafa (og börk) út í annan helminginn og limesafa og börk út í hinn helminginn. Ath. að þá er það helmingur miðað við magnið sem er gefið upp hér að ofan.
 7. Setjið deigið í pappírsform, þessi uppskrift ætti að passa í 12 meðalstór form.
 8. Bakið í 20-25 mínútur.

Krem á appelsínukollur
150 g smjör
200 g flórsykur
2 msk Grand Marnier (eða safi úr 1/2 appelsínu til að gera það barnvænt!)
matarlitur (appelsínugulur eða gulur og rauður)

Aðferð

 1. Þeytið allt saman í hrærivél eða handþeytara.
 2. Dugar á heila uppskrift

Krem á limekollur
1 lítil dós kókosmjólk (160 ml)
150 g smjör
230 g flórsykur
2 tsk vanillusykur

Aðferð

 1. Hellið kókosmjólkinni í pott og látið suðuna koma upp.
 2. Lækkið hitann og látið sjóða í 15-20 mínútur.
 3. Takið pottinn af hitanum og látið mjólkina kólna alveg (helst í ísskáp í íláti með loki).
 4. Þeytið smjör, flórsykur og vanillusykur saman.
 5. Bætið kókosmjólkinni útí, ca. matskeið í einu og hrærið vel á milli.
 6. Dugar á heila uppskrift.

Tips og trikk:

 • Ef tvöfalt appelsínubragð er of mikið má sleppa appelsínunni í kollunum sjálfum og bæta við 50 ml af mjólk í staðinn
 • Hafið smjör og egg við stofuhita (og mjólk, sé hún notuð)
 • Munið að kæla kökurnar alveg áður en kremið er sett á!
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s