Pönnukökusunnudagur til sælu

Pancakes-7211-2
Bananapönnukökur

Fyrst eftir að ég flutti til Danmerkur og við bjuggum í pínulítilli kollegí íbúð á stærð við baðmottu hlustuðum við nokkuð oft á Jack Johnson, allavega minnir tónlistin hans mig alltaf á þennan tíma! Eitt af krúttlegu lögunum hans heitir Banana Pancakes og inniheldur þennan textabút:

Like wakin’ up too early
maybe we could sleep in
I’ll make you banana pancakes
pretend like it’s the weekend now
and we could pretend it all the time

Restin af textanum er alveg dásamlega væmin og á mjög vel við þegar maður er ástfanginn og ekkert í heiminum er mikilvægara en að kúra með elskunni sinni!

Ástæðan fyrir því að ég er að rifja þetta lag upp er sú að rétt fyrir helgi tók ég eftir því að einmana bananinn í ávaxtakörfunni var orðinn ansi brúnleitur og um leið heyrði ég Jack Johnson í hausnum á mér syngja ‘I’ll make you bananapancakes…’ og ég ákvað að það væri kominn tími á pönnukökusunnudag.

Það eru tvær manneskjur sem hafa kennt mér mest um pönnukökugerð. Íslenskar pönnukökur lærði ég að gera í eldhúsinu hjá mömmu minni (sem er eldhússnillingur af gamla skólanum) og eftir að hafa mörgum sinnum reynt að gera amerískar pönnukökur með misjöfnum árangri, var það sjálf Martha Stewart sem kom mér á sporið. Martha segir að galdurinn við að fá pönnukökurnar flöffí sé að hræra deigið ekki of mikið; það er víst mun betra að það sé pínu kekkjótt.

Íslenska pönnukökusoppan á nefnilega að hrærast út alveg kekkjalaus með öllum þeim krafti sem upphandleggsvöðvarnir megna og þegar ég byrjaði að prófa mig áfram með amerísku pönnukökurnar hrærði ég það á sama hátt en var aldrei neitt sérstaklega ánægð með kökurnar. Eftir að ég rakst á þessa klausu hjá Mörthu er ég hins vegar hætt því; hræri deigið bara lauslega saman og fæ út alveg sjúklega flöffí og flottar pönnukökur! Ég er hins vegar ekkert svakalega góð í að fá þær til að vera alveg fullkomlega kringlóttar eins og hjá ms. Stewart, það er næsta takmark!

En kringlóttar eða ekki, bananapönnukökur eru dásemd sem þú verður að prófa allavega einu sinni. Næst þegar þú rekst á banana sem á ekki langt líf eftir, hafðu þá þessa uppskrift í huga.

Bananapönnukökur
– 12-15 stk

125 g hveiti
1 msk sykur
1/2 tsk lyftiduft
3/4 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2,5 dl hrein jógúrt eða súrmjólk
1 3/4 dl mjólk
1 egg
25 g smjör, brætt og kælt
1 tsk vanilludropar
1 banani, stappaður

aðferð

 1. Þurrefnunum blandað saman í skál.
 2. Jógúrtinni hrært samanvið (ég nota písk til að hræra, finnst það gefa betri áferð en að nota sleif).
 3. Mjólkinni hrært samanvið þar blandan er þykk og kekkjótt.
 4. Eggi og smjöri hrært samanvið þar til blandað.
 5. Vanilludropum og banana hrært samanvið þar til blandað.
 6. Hitið stóra (teflon/non-stick) pönnu á meðalhita, ausið tveimur skömmtum af soppunni á pönnuna með góðu millibili.
 7. Bíðið þar til deigið á yfirborðinu bubblar aðeins en er samt ennþá fljótandi, snúið kökunum þá við og bakið í 1-2 mínútur á hinni hliðinni.
 8. Endurtakið þar til klárast!

Berið fram með öllu sem ykkur dettur í hug.
Á mínu heimili erum við sko alls ekki föst í því að það verði að bera fram hlynsýróp með amerískum pönnukökum. Við tökum fram það sem finnst í skápunum t.d: hnetusmjör, súkkulaðismjör (t.d. Nutella), sultu, rjóma, hunang, súkkulaðispæni, karamellusósu, niðurskorna ávexti, rifið marsipan… bara allt sem okkur dettur í hug að gæti verið gott ofan á pönnukökur. Svo búum við til nýjar samsetningar á hverja pönnuköku og stynjum af matargleði með hverjum bita!

Uppáhaldið mitt er samt kryddaðar möndlur sem ég geri stundum til að eiga inni í skáp. Þær er bæði hægt að grípa í sem millimálasnakk og svo eru þær frábært leynivopn til að gefa smá úmpf í desertinn eða á kaffiborðið. Þær gefa crunchy áferð og tóna ótrúlega vel með rjóma; flöffí pönnukaka með (hindberja)sultu, rjóma og möndlum er algjörlega to die for. Svo gott að það er þess virði að sletta ensku fyrir!

Þessar möndlur eru einfaldlega eitt af mínum uppáhalds eldhúsleyndarmálum og ég ætla að vera svo góð að kjafta þessu leyndarmáli í ykkur..

Kryddaðar möndlur

50 g möndlur
1-2 tsk hunang
klípa af salti
1/2 tsk basil

aðferð

 1. Grófskerið möndlurnar þannig að hver fari í ca. 4-5 stykki.
 2. Ristið á þurri pönnu á meðalhita. Hrærið í þeim af og til og snúið þeim.
 3. Þegar þær eru farnar að brúnast, hellið þá hunanginu út á pönnuna, takið hana af hitanum og hrærið þar til allar möndlurnar eru þaktar hunangi.
 4. Stráið salti og basil yfir og hrærið í.
 5. Setjið möndlurnar í skál og kælið í ísskáp.
 6. Takið þær út áður en þið ætlið að nota þær og saxið niður í æskilegan grófleika. Geymast örugglega í smátíma í lokuðu íláti, það hefur bara ekki reynt á það hjá mér því þær klárast!

Njótið vel.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s