Lúxus hnetukaka

Lúxus hnetukaka
Lúxus hnetukaka

Jæja, er ekki kominn tími á  köku eftir alla hollustuna í síðustu viku?!

Ég fór á hitting með nokkrum hressum íslenskum stelpum í gær. Við kynntumst fyrst í gegnum grúppu á Facebook þegar við ákváðum að hittast saman og steikja kleinur. Það var stórskemmtilegur dagur; hópurinn náði vel saman og hefur hist nokkrum sinnum upp frá því sem er ánægjuleg viðbót við félagslífið hérna úti. Stundum þarf maður bara að tala íslensku..

Til að leggja ekki of mikið á gestgjafann höfum við það þannig að allir koma með eitthvað á borðið og mitt framlag til gærkvöldsins var  þessi hnetukaka sem ég kalla gjarnan súkkulaðiköku fyrir fullorðna. Hún er nefnilega frekar þung og þétt, ekki mjög sæt og svo er hellingur af áfengi í henni! Það er pínu fyrirhöfn að undirbúa og baka hana, en algjörlega þess virði þegar það vantar eitthvað djúsí á veisluborðið eða þegar saumaklúbburinn er á leiðinni. Og þó það hafi nú ekki endilega verið ætlunin með þessari köku, þá passar hún vel fyrir lágkolvetnalífstílinn ef sykrinum er skipt út fyrir heppilegra sætuefni, svona svo það komi fram!

Hnetukaka2

Lúxus hnetukaka

200 g heslihnetur
150 g valhnetur
120 g smjör (mjúkt)
3-4 msk koníak eða dökkt romm
150 g dökkt súkkulaði (að lágmarki 55%)
6 egg, skilin
1/4 tsk salt
170 g sykur

Ganache

130 g dökkt súkkulaði (að lágmarki 55%)
15 g smjör
1 dl rjómi
1 msk koníak eða dökkt romm
1-2 msk sýróp

aðferð

 1. Hitið ofninn í 175°C.
 2. Malið hneturnar í matvinnsluvél eða blandara sem ræður við verkið þar til þær eru orðnar að fíngerðu dufti.
 3. Bræðið súkkulaðið í örbylgju eða yfir vatnsbaði.
 4. Hrærið saman hnetur, smjör, koníak/romm og súkkulaði.
 5. Hrærið eggjarauðunum saman við, einni í einu og hrærið vel á milli.
 6. Þeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til toppar fara að myndast, bætið þá sykrinum rólega útí og þeytið þar til blandan er glansandi og stíf.
 7. ‘Foldið’ ca. 1/4 af eggjahvítunum með sleikju samanvið hnetu/súkkulaðiblönduna og ‘foldið’ svo restinni varlega saman.
 8. Hellið í smurt 23 cm springform með háum brúnum og bakið í 45-55 mínútur.
 9. Rennið hníf meðfram hliðunum þegar kakan kemur út og opnið formið strax.
 10. Látið kólna á borði.

Ganache

 1. Brjótið súkkulaðið í bita og setjið í skál ásamt smjöri.
 2. Setjið rjóma, koníak/romm og sýróp í pott og hitið að suðu.
 3. Hellið rjómablöndunni yfir súkkulaðið, látið bíða í hálfa til eina mínútu og hrærið svo þar til súkkulaðið er bráðnað.
 4. Látið standa í ca. 10 mínútur, hellið svo yfir kökuna og látið renna niður hliðarnar. Skreytið e.t.v. með valhnetukjörnum.
 5. Látið kökuna standa í ísskáp þar til ganache hefur stífnað vel (minnst klukkustund áður en hún er borin fram).

Berið fram með þeyttum rjóma og e.t.v. hindberjum.

Tips og trikk

 • Ég nota handþeytara til að hræra súkkulaðiblönduna og eggjarauðurnar saman og hrærivél til að þeyta eggjahvíturnar. Mér finnst það einfaldara en að byrja að nota hrærivélina og þurfa svo að tæma úr henni í aðra skál og þvo spaðann í miðjum klíðum. Ef bara annað er til staðar er líka hægt að setja smá vöðva í þetta og hræra súkkulaðiblönduna saman með sleif!
 • Það er í fínu lagi að sleppa áfenginu en þá mæli ég með því að setja örlítið meira smjör og nota 1 tsk af vanilludropum í kökuna sjálfa.
 • Gott cabernet sauvignon passar einstaklega vel með þessari köku, nú eða bolli af dökkristuðu, arabísku kaffi.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s