Hvítbaunachili og guacamole

Mér skilst að það sé ennþá kalt á Íslandi. Þá er nú aldeilis gott að skella í gott chili og hlýja sér vel innanfrá, er það ekki bara?!

Mér finnst að allir eigi að eiga að minnsta kosti eina góða chiliuppskrift. Þegar ég var að byrja að standa á eigin fótum í eldhúsinu keypti ég yfirleitt chili krydd í pakka, sturtaði úr honum yfir hakk skv. leiðbeiningum og maturinn tilbúinn eftir 20 mínútur! Útkoman var svosem ekkert hræðileg en ef ég ætti að bera saman það ‘chili’ við það sem ég geri í dag þá er ekki spurning um hvor máltíðin hefði vinninginn. Að leggja vinnu í uppskrift og eldunaraðferð er einfaldlega eitthvað sem skilar alltaf góðum árangri.

Mér finnst chiliið mitt best ef það fær að malla í að minnsta kosti 2 tíma svo þetta er ekki uppskrift til að prófa nema þið hafið góðan tíma. Og passið uppá að vera ekki svöng þegar þið byrjið að elda því ilmurinn upp úr pottinum á eftir að fylla allt húsið!

Mér finnst alltaf gott að bera fram guacamole með sterkum, mexíkansk-ættuðum mat, uppskriftin að því fylgir fyrir neðan.

Hvítbaunachili, brún grjón, gucamole og sýrður rjómi
Hvítbaunachili, brún grjón, gucamole og sýrður rjómi

Hvítbaunachili

– fyrir 2

400 g hakk
1 tsk oregano
1 tsk cumin
1/2-1 tsk cayenne pipar
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
1/2 rauð paprika
2 msk salsasósa (tilbúin eða heimagerð, helst sterk)
1 dós (ca. 400 g) hakkaðir tómatar
1/2 kjúklingateningur
500 ml vatn
1 dós (ca. 250 g) cannellini baunir
salt eftir smekk

aðferð

 1. Hitið smá olíu í víðum potti og brúnið hakkið (kryddið með oregano, cumin og cayenne pipar).
 2. Skerið lauk, hvítlauk og papriku í þá stærð sem þið viljið hafa það og setjið út í pottinn. Leyfið öllu að eldast saman þar til laukur og paprika eru farin að mýkjast (3-4 mínútur).
 3. Hrærið salsasósunni og hökkuðu tómötunum út í pottinn, myljið kjúklingateninginn útí og leyfið suðunni að koma upp.
 4. Hellið baununum í sigti, skolið af þeim og bætið útí.
 5. Hellið ca. 2 dl af vatni í pottinn, hrærið vel og látið sjóða undir loki við frekar vægan hita í minnst 1,5-2 klst.
 6. Hrærið af og til í pottinum og bætið meira vatni útí eftir þörfum (það getur verið að það þurfi meira en 500 ml, getur verið að það þurfi minna).
 7. Látið sjóða án loks og hrærið í pottinum þar til chiliið hefur fengið þá áferð sem ykkur finnst ásættanleg.
 8. Smakkið til með salti.

Berið fram með hrísgrjónum, guacamole og sýrðum rjóma, jafnvel nachos flögum ef þannig liggur á ykkur. Það er líka alveg óvitlaust að strá smá cheddar osti yfir hvern skammt af chiliinu!

Tips og trikk

 • Chiliið verður mjög gott ef leiðbeiningunum hér að ofan er fylgt. Ég nota samt aðra aðferð í lokinn sem er pínu trikkí að lýsa en ég ætla nú samt að reyna það. Þegar lokið er tekið af gufar vökvinn upp, eðli málsins samkvæmt. Ég hækka hitann aðeins og læt pottinn alveg vera þangað til chiliið er farið að þykkna og festast aðeins við botninn (passa samt vel að það brenni ekki, það á bara aðeins að karamelíserast). Þá hræri ég það upp, bæti ca. hálfum dl af vatni samanvið og endurtek leikinn nokkrum sinnum. Þessi prósess gefur smá extra úmpf í chiliið en það er líka hárfín lína milli karamelíseringar og viðbrennslu svo fylgist vel með pottinum ef þið reynið þetta!
 • Það er hægt að nota hvaða hakk sem er í réttinn en ég mæli með blönduðu hakki (t.d. kálfa og svína) eða kjúklingahakki (sem er það sem ég nota).

 

Og þá er komið að guacamole. Það er svo einfalt og gott að gera guacamole að ég skil eiginlega ekki fólk sem kaupir það tilbúið í dós. Eða jú.. ég skil það svosem þegar það er ekki hægt að fá góð avocado, því vont guacamole er betra en ekkert guacamole! Og nú er orðið guacamole farið að synda fyrir augunum á mér og er hætt að meika sens svo það er best að vinda sér í uppskriftina…

Það sem þú þarft í gott guacamole
Það sem þú þarft í einfalt og gott guacamole

 

Guacamole

– fyrir 2-3

2 þroskuð avocado
1/2 lítill rauðlaukur
3 kokteiltómatar (eða 1 venjulegur)
1 lítið hvítlauksrif
ca. 2 tsk sítrónusafi
salt og pipar eftir smekk

aðferð

 1. Stappið avocadoin gróft með gaffli.
 2. Skerið rauðlaukinn og tómatana smátt.
 3. Pressið hvítlauksrifið eða skerið það smátt.
 4. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til með sítrónusafa, salti og pipar.

Tips og trikk

 • Notið frekar minna salt en meira til að byrja með, ég held að ofsöltun sé það eina sem getur eyðilagt guacamole!
 • Avocado eru trikkí; þau eiga að vera mjúk þegar maður klípur aðeins í þau en ekki of mjúk. Það er í fínu lagi að það sé aðeins komið brúnt í þau en ef það eru stórir brúnir flekkir skulið þið ekki nota þau.
 • Það er alveg hægt að henda öllum innihaldsefnunum í matvinnsluvél eða mixa með töfrasprota en mér finnst þessi grófa áferð sem kemur þegar maður stappar og saxar sjálfur gera guacamole-ið miklu betra!
 • Guacamole geymist ekki vel. Gerið því ekki stærri skammt en þarf með einni máltíð.
 • Guacamole er líka fín nachos ídýfa með bíókvöldinu 😉
Guacamole
Guacamole
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s