Einfalt kjúklingasoð

Þó markmiðið mitt í eldhúsinu sé að elda sem mest frá grunni þá stytti ég mér nú samt leiðir hér og þar. Ég nota t.d. niðursoðna tómata í sósur og súpur, kaupi yfirleitt dósir af baunum í stað þess að leggja sjálf í bleyti og sjóða (þó það komi nú fyrir að ég geri það), ég nota mikið af frosnu grænmeti, enda hætt við að ferskt grænmeti fari til spillis á tveggja manna heimili og ég nota oftast kjötkraft í teninga- eða duftformi.

Mér finnst nú samt alveg einstaklega gott að eiga og nota heimatilbúið kjúklingasoð í staðinn fyrir teninga og duft. Auðvitað ætti maður að nýta beinin í hvert skipti sem maður eldar heilan kjúkling eða læri en allt of oft enda beinin í ruslinu og ég gríp teninginn næst þegar ég elda.

Þegar ég gerði rifna kjúklinginn um daginn ákvað ég að nú skyldu beinin nýtt! Það er annars frábært að nota akkúrat þá uppskrift, því þar sem kjúklingabitarnir eru soðnir í vatni er það strax orðið að frábærum grunni fyrir himneskt kjúklingasoð. Þegar búið er að rífa mestallan kjúklinginn af beinunum fara þau einfaldlega aftur í pottinn ásamt nokkrum öðrum hlutum og svo þarf bara að láta sjóða. Afraksturinn er alveg dásamlegur grunnur í allar súpur og sósur.

Ástæðan fyrir því að ég ætla að birta þessa uppskrift hér er sú að mér finnst eins og margir séu hálf smeykir við að útbúa heimagert soð; halda að það sé meira vesen en það er eða hreinlega dettur ekki í hug að það sé möguleiki að gera þetta sjálfur. Ef það á við um ykkur vil ég endilega hvetja ykkur til að prófa þetta sjálf því það er ekki bara bragðgott að nota þetta í matargerð, heldur er það pínu upplyfting fyrir eldhúsandann að vita að maður getur þetta!

Kjúklingasoð
Kjúklingasoð
Allt sem þarf í gott kjúklingasoð!
Allt sem þarf í gott kjúklingasoð!

Kjúklingasoð

Kjúklingabein (gjarnan fita líka) sem samsvarar minnst 2 lærum og 2 leggjum
1,5 l vatn
2 gulrætur
1 vænn laukur
2 hvítlauksrif
1 sellerý stilkur
1/2 púrrulaukur
2 lárviðarlauf
5-10 svört piparkorn (heil)
1/2 – 1 tsk gróft salt
hnefafylli fersk steinselja

aðferð

  1. Setjið kjúklingabeinin í pott ásamt vatni, látið suðuna koma hratt upp, lækkið þá strax undir pottinum og látið sjóða á vægum hita í ca. 30 mínútur. (Ath. að ef þið notið vatn sem kjúklingur hefur þegar verið soðinn í (t.d. ef þið hafið eldað rifinn kjúkling!) má sleppa þessu skrefi)
  2. Skerið grænmetið í grófa bita og bætið öllu nema steinseljunni útí pottinn.
  3. Látið sjóða áfram á lágum hita í 2-3 klst undir loki.
  4. Takið lokið af og látið sjóða niður í minnst 30 mín. Því lengur sem það sýður án loks, því sterkara og betra verður soðið.
  5. Hrærið steinseljunni samanvið undir lokin.
  6. Slökkvið undir pottinum og látið soðið kólna í honum.
  7. Þegar soðið er fullkælt er það sigtað og sett í krukku eða lokaða könnu til geymslu. Einnig má frysta það í hæfilegum einingum (það er t.d. sniðugt að setja það í klakapoka).
  8. Soðið geymist í minnst 2 vikur í kæli í góðu, lokuðu íláti. Eftir það skulið þið treysta nefinu og öðrum skynfærum fyrir því hvort óhætt sé að nota það! Í frysti geymist það í minnst 3-4 mánuði.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s