Tom Kha Gai

Það er búið að vera lítið að gerast í eldhúsinu undanfarna daga vegna veikinda á heimilinu en ég á þó þessa dásemdaruppskrift að thailenskri Tom Kha Gai súpu í handraðanum til birtingar.

Tom Kha Gai
Tom Kha Gai

Sumarið 2013 var fyrsta sumarið hérna í Danmörku sem við vorum á bíl. Með örstuttum fyrirvara ákváðum við að nýta nálægðina við meginland Evrópu; kíktum á verð á hótelherbergjum í Hollandi og settum saman smá ferðaplan. Tveimur dögum seinna settumst við inn í bílinn og keyrðum rúma 900 km sem leið lá til Amersfoort. Þar höfðum við bókað herbergi á góðu hóteli og fórum þaðan í styttri ferðir til Utrecht og Amsterdam; fyrirkomulag sem ég mæli eindregið með ef þið ætlið til Hollands og viljið sjá eitthvað meira en bara miðborg Amsterdam!

Ferðin var í stuttu máli sagt alveg frábær. Við fengum yndislegt veður og urðum yfir okkur hrifin af hollensku mannlífi og menningu. Það var þó eitt sem stendur upp úr frá deginum sem við vörðum í Amsterdam. Van Gogh safnið var auðvitað alveg ótrúleg upplifun en um kvöldið fórum við að leita að heppilegum stað til að fá okkur að borða. Við höfðum séð álitlegan stað nefndan í túristabæklingi svo við röltum yfir Dam torgið og hófum leitina. Eftir dágott labb höfðum við ekki enn fundið staðinn og orðin alveg hrikalega svöng þegar við sáum pínulítinn thailenskan veitingastað hinum megin við götuna og gengum í áttina að honum. Innandyra var setið við öll borð en úti hafði verið komið fyrir tveimur borðum enda veðrið gott, og annað þeirra var laust. Við ákváðum að láta slag standa og fengum okkur sæti og erum sammála um að það hafi verið algjörlega rétt ákvörðun því maturinn sem við fengum þarna var alveg ólýsanlega góður. Í lok máltíðarinnar vorum við meira að segja farin að veiða inn aðra túrista sem stoppuðu til að skoða matseðilinn með yfirlýsingum um hvað við hefðum fengið unaðslega góðan mat!

Ég pantaði mér einmitt Tom Kha Gai súpu sem hefur ásótt mig í draumum síðan þá;  þegar ég kom heim ákvað ég að finna góða uppskrift og læra að elda þessa súpu og hér er komin sú uppskrift sem ég ætla að halda mig við héðan í frá.

Bein þýðing á Tom Kha Gai er soðinn (Tom) kjúklingur (Gai) með galangal rót (Kha). Ég vona að ég sé að muna þetta rétt! Mér skilst að í Thailandi sé hefðin sú að borða Tom Kha Gai með hrísgrjónum, enda ekki litið á þennan rétt sem súpu heldur sem hvern annan kjötrétt. Ég ætla þó að leyfa mér að bera þetta fram sem súpu því mér finnst að þessi einstaka blanda af sætu/súru/sterku/umami bragði eigi að fá að njóta sín sem best í munninum!

Grunnurinn í Tom Kha Gai
Grunnurinn í Tom Kha Gai

Tom Kha Gai

– fyrir 2

1/2 l soð (eða kraftur, leystur upp í vatni)
2 dósir kókosmjólk
2 kjúklingabringur
200 g sveppir
2 stilkar sítrónugras (1 ef hann er stór)
2 thai-chili (einnig kallað birds-eye chili)
5 cm biti af galangal rót
4-5 kaffir lime blöð
safi úr 1-1 1/2 lime
2-3 msk fiskisósa

aðferð

 1. Hitið soðið í víðum potti og leyfið því að sjóða aðeins niður.
 2. Skerið kjúklingabringurnar í bita og sveppina í sneiðar.
 3. Skerið sítrónugrasið í ca. 2 cm bita. Kremjið sítrónugrasbitana og chilibelgina með breiðum hníf.
 4. Skerið galangal rótina í þunnar sneiðar.
 5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt sítrónugrasinu, kaffir lime blöðunum og galangal rótinni og hitið við vægan hita rétt að suðu.
 6. Eftir ca. 10 mínútur, bætið þá kjúklingnum og sveppum útí pottinn. Haldið hitastiginu frekar í lægri kantinum alveg við suðu, þetta á aldrei að bullsjóða, bara fá að hitna rólega saman.
 7. Þegar kjúklingurinn er við það að verða eldaður í gegn, bætið þá chilibelgjunum útí.
 8. Takið pottinn af hitanum þegar kjúklingurinn er fulleldaður, bætið þá limesafa og fiskisósu útí. Byrjið á að setja safa úr 1 lime og 2 msk af fiskisósu, hrærið vel og smakkið; bætið við limesafa og fiskisósu eftir smekk.

Tips og trikk

 • Notið helst fersk kaffir lime blöð ef hægt er, þó er í góðu lagi að nota þurrkuð. Sítrónugrasið ætti aftur á móti ekki að vera þurrkað, svona upp á bragðgæðin að gera, heldur er langbest að hafa það ferskt.
 • Ef þið eigið ekki thai-chili má nota annars konar chili í staðinn.
 • Það setur alveg punktinn yfir i-ið að setja nokkra dropa af chiliolíu eða chilimauki út í súpuna þegar hún er komin á diskinn (ekki í pottinn), t.d. Nam Prik Pao ef maður vill halda í hið thailenska. Ég átti Sambal-Olek í skápnum svo ég notaði það og fannst það koma mjög vel út.
 • Það á ekki að borða kaffir lime blöðin, sítrónugrasbitana, chili belgina eða galangal sneiðarnar!
 • Litli krúttlegi veitingastaðurinn sem kveikti áhuga minn á þessari súpu heitir Maenaam Thai og er við Spuirstraat í Amsterdam, endilega leitið hann uppi ef þið eigið leið þarna um!
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s