Sítrónuostakaka með möndlubotni, kókosmarengs og hvítri karamellusósu

Sítrónuostakaka
Sítrónuostakaka

Eins gaman og mér þykir að baka og dunda mér í eldhúsinu þá er ég líka stundum löt. Um daginn greip ég með mér svona frosna ostaköku úti í búð:
40946_Almondy-Philadelphia-cheesecake

Hún var svosem ágæt en hún gerði voða lítið annað fyrir mig en að minna mig á hvað það var orðið langt síðan ég hef gert alvöru ostaköku og að ég gæti örugglega gert betri sítrónuostaköku! Alvöru djúsí ostaköku með góðum botni og einhverju virkilega sérstöku úmpfi.. Svo ég fór að hugsa.. og ég hugsaði og hugsaði þangað til ég var komin með þetta: Sítrónuostakaka á möndlubotni (eins og þessi frosna) með kókosmarengstoppi og hvítri karamellusósu.  Ég gat samt ekki alveg réttlætt það þá og þegar að baka heila ostaköku fyrir okkur tvö svo framkvæmdin fékk að bíða aðeins. Þegar okkur var svo boðið í mat til góðra vina (sem ég veit að eru mikið fyrir ostakökur!) bauðst ég til að sjá um eftirréttinn fyrir kvöldið og því var auðvitað vel tekið enda eru gestgjafarnir nýbakaðir foreldrar í annað sinn og eru með 2 börn undir 2,5 árs aldri og því kannski með takmarkaðan tíma til að eyða í desertadúllerí.

Ég held að ég eigi aldrei eftir að gleyma svipnum á þeim þegar kom að eftirréttinum, það eru akkúrat svona stundir sem gera allt þetta eldhúsdundur þess virði, það er meira að segja búið að panta þessa köku fyrir skírn yngra barnsins! Það fylgdi ánægja hverjum bita og ég held í alvörunni að þetta sé einhver sú best heppnaða uppskrift sem hefur komið úr mínu eldhúsi, þó ég segi sjálf frá og ég er búin að hlakka mikið til að deila þessari uppskrift hérna.

Það eru þónokkuð mörg skref frá upphafi til enda en ég lofa að það er ekkert óþarflega flókið við þessa köku og hún er algjörlega þess virði að leggja á sig smá tíma í eldhúsinu!

Sítrónuostakaka
Sítrónuostakaka

Sítrónuostakaka

Botn
100 g möndlur
225 g hafrakex (um 15 kexkökur)
40 g marsipan
2 msk sykur
85 g smjör

Kakan
500 g rjómaostur
140 g sykur
3 egg
2 eggjarauður
safi úr 1 sítrónu (tæplega 1 dl)
2 tsk sítrónubörkur, fínt rifinn
1 msk möndlulíkjör (má sleppa, en gott að setja þá 1 tsk af möndludropum í staðinn)

Marengstoppur
1/2 dl kókosmjöl
2 eggjahvítur
65 g flórsykur

Hvít karamellusósa
50 g sykur
2 msk vatn
25 g smjör
2 msk sýrður rjómi
50 g hvítt súkkulaði

aðferð

Botn

 1. Malið möndlurnar í matvinnsluvél eða hakkara og setjið í skál.
 2. Malið kexið smátt (nánast í duft) og bætið í skálina.
 3. Rífið marsipanið á grófu rifjárni og bætið í skálina ásamt sykri.
 4. Bræðið smjörið og hellið útí, hrærið öllu vel saman.
 5. Klæðið botninn á 23 cm smelluformi með smjörpappír og þrýstið kexblöndunni í botninn og upp með hliðunum.
 6. Kælið í 20-30 mínútur.

Kakan

 1. Hitið ofninn í 160°C
 2. Mýkið rjómaostinn í hrærivél eða með handþeytara.
 3. Blandið sykrinum samanvið.
 4. Hrærið eggjunum útí, einu í einu og síðast eggjarauðunum.
 5. Blandið sítrónusafa, sítrónuberki og möndlulíkjör útí.
 6. Hellið yfir botninn og bakið í 45 mínútur.
 7. Takið úr ofninum, kælið á borði í minnst 15 mínútur.

Marengstoppur

 1. Hitið ofninn í 160°C
 2. Þurrristið kókosmjölið á pönnu. Gætið þess að brenna það ekki, það þarf ekki langan tíma og gott að hræra í því með sleif eða spaða á meðan.
 3. Þeytið eggjahvíturnar þar til mjúkir toppar myndast.
 4. Bætið flórsykrinum útí, 1 msk í einu.
 5. Þeytið þar til stíft og hrærið svo kókosmjölinu varlega samanvið.
 6. Smyrjið marengsinum yfir ostakökuna í forminu og bakið í 20 mínútur.
 7. Kælið kökuna alveg.

Hvít karamellusósa

 1. Setjið vatn og sykur í pott og bræðið saman í sýróp við hærri endann á meðalhita.
 2. Hrærið í pottinum með trésleif á meðan sykurinn er að bráðna, hættið að hræra þegar blandan fer að sjóða en hristið pottinn af og til á hellunni ef ykkur finnst þess þurfa. Fylgist vel með pottinum!
 3. Látið sjóða í 4-5 mínútur eða þar til blandan er orðin að þykku sýrópi.
 4. Skerið smjörið í litla bita og hrærið útí sýrópið.
 5. Takið pottinn af hitanum og hrærið sýrðum rjóma útí.
 6. Saxið hvíta súkkulaðið frekar smátt, bætið því útí pottinn og hristið hann aðeins svo súkkulaðið dreifist jafnt um botninn. Látið bíða í 15-20 sekúndur og hrærið öllu saman.
 7. Látið sósuna kólna aðeins, dreifið svo ca. 1/3 af henni yfir kökuna og berið rest fram í skál svo gestir geti fengið sér aðeins aukalega!
Sítrónuostakaka
Sítrónuostakaka

Tips og trikk

 • Það er best að hafa öll hráefnin við höndina þegar karamellusósan er gerð, það þarf að hafa snör handtök við að bræða og hræra.
 • Áður en þið losið kökuna úr mótinu, rennið þá hníf varlega meðfram brúnunum, opnið mótið og færið kökuna (varlega!) af smjörpappírnum yfir á disk.
 • Botninn getur bæði verið grófur og fínn eftir því hvort möndlurnar eru malaðar gróft eða fínt. Það eru smá deilur um þetta á mínu heimili, mér finnst gott að hafa hann grófan en kærastinn vill hafa hann fínan! Til að fá hann fínan er best að mala möndlurnar í matvinnsluvél eða hakkara og sigta svo útí skálina. Gætið þess samt að það fari rétt magn af möndlum útí.
 • Mér finnst gott að láta botninn ná vel upp á hliðarnar en það er reyndar alls ekki nauðsynlegt þegar um bakaðar ostakökur er að ræða. Hafið botninn eins háan eða lágan og ykkur lystir!
 • Eitt í viðbót varðandi botninn; ég notaði hafrakex með dökku súkkulaði sem kom virkilega vel út en það má líka nota venjulegt, ósætt hafrakex.
 • Ef kakan er bökuð daginn áður en hún er borin fram þarf að geyma hana í kæli. Gætið að því að ostakökur taka auðveldlega í sig bragð svo gætið þess að ekkert lyktsterkt sé í ísskápnum eða geymið kökuna í plastpoka eða undir tertuhjálmi.
 • Það er ekki óalgengt að rjómaostur skilji sig aðeins við bakstur og að það leki smá vökvi úr forminu. Til að forðast brunarústir í botninum á ofninum er ágætt að vefja álpappír um botninn á forminu!
 • Hindberin voru ekki útpæld viðbót heldur átti ég bakka af þeim inni í ísskáp og þau pössuðu æðislega vel með. Ég mæli með því að hafa þau með!
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s