
Eins og ég hef sagt áður þá er ég stundum svolítið föst í því meðlæti sem ég ber fram með mat og langar að breyta því. Í kvöld gerði ég tilraun sem er kannski ekkert voða framúrstefnuleg í hinu stóra eldhússamhengi heimsins en ég er afskaplega ánægð með afraksturinn. Það er kannski bara af því að ég átti yndislegan dag úti í sólinni, en mér fannst þetta bragðast eins og sumar og sól og mæli þess vegna með þessu sem meðlæti með góðum grillmat eða þegar veður er til að borða úti á verönd eða svölum!
Ofnbakaðar kartöflur með kirsuberjatómötum
– fyrir 2 með mat
2 msk olía
1 1/2 tsk Maldon salt
1 tsk timjan
1 tsk þurrkuð steinselja
1/2 tsk rósmarín
1/2 tsk grófmalaður pipar
12-14 litlar kartöflur (helst nýjar eða með góðu hýði)
10-12 kirsuberjatómatar
aðferð
- Hitið ofninn í 225°C
- Hellið olíunni í botninn á eldföstu móti og hrærið kryddunum samanvið.
- Skerið kartöflurnar í tvennt og setjið í mótið ásamt tómötunum.
- Veltið kartöflum og tómötum aðeins um í olíunni svo hún þeki vel.
- Setjið í miðjan ofn og bakið í 15 mínútur, lækkið þá í 200°C og bakið áfram í 20 mínútur.

Auglýsingar