Baunabuff með asísku ívafi

Girnileg grænmetismáltíð
Girnileg grænmetismáltíð

Í ákveðinni búð hérna í bænum eru reglulega tilboð á niðursoðnum baunum og tómötum og ég á það til að grípa með mér slatta sem safnast svo upp í búrskápnum. Einmitt þess vegna stendur núna yfir átakið ‘BORÐUM BAUNIR’ hérna á heimilinu til að grynnka aðeins á staflanum; baunasalöt, baunabætt hrísgrjón, baunabættir pottréttir, baunaþetta og baunahitt. Og baunabuff!

Mér finnst grænmetisbuff alveg æði. Þessi eru krydduð með gulu karrýmauki og smá extra sítrónugrasi og chili í anda thailenskrar matargerðar og eru virkilega bragðmikil og spes. Það er gott að gera þessi þegar maður hefur tímann fyrir sér því það er best ef buffin fá að standa aðeins í kæli áður en þau eru matreidd. Það má líka alveg útbúa þau kvöldið áður en á að bera þau fram, og jafnvel bara betra að gera það!

Og af því að margir eru ekki vanir grænmetisréttum og eru kannski óöruggir þegar kemur að meðlæti þá ætla ég að láta uppskriftirnar að meðlætinu sem ég bar fram með þessu fylgja með líka; hunangssteikt rauðkál og chili-limesósa. Þar fyrir utan var ég með bulgur og grænt salat; holl og góð máltíð!

 

Hráefnin í baunabuff
Hráefnin í baunabuff

Hvítbaunabuff með asísku ívafi

2 meðalstórar gulrætur
1 lítill laukur
2-3 hvítlauksrif
1/2 rauður chili
1 stilkur sítrónugras
2 tsk gult karrýmauk
1/2 tsk engifer, rifið ferskt eða mauk
350 g cannellini baunir eða aðrar hvítar baunir, soðnar
2 msk kornsterkja (t.d. mais- eða kartöflumjöl)
1 msk fiskisósa
ferskur kóríander (ca. 2 matskeiðar, saxað)
fersk steinselja (ca. 2 matskeiðar, saxað)
1 1/2 dl brauðrasp (t.d. Panko)

Baunabuff1-

aðferð

 1. Rífið gulræturnar gróft
 2. Skerið lauk og hvítlauk gróft, skerið chili og sítrónugras smátt.
 3. Hitið 1 msk olíu (ekki ólífuolíu) og 1 tsk sesamolíu á pönnu og steikið gulrætur, lauk, hvítlauk, chili og sítrónugras.
 4. Hrærið gulu chilimauki og engifer út á pönnuna og steikið í ca. 5 mínútur þar til grænmetið er mjúkt (á ekki að brúnast). (mynd 1)
 5. Njótið ilmsins af pönnunni!
 6. Færið grænmetið í matvinnsluvél og maukið gróft (eða notið töfrasprota).
 7. Setjið um 3/4 af baununum í skál, blandið maukuðu grænmetinu saman við og stappið saman með gaffli ásamt kornsterkju og fiskisósu.
 8. Skerið kóríander og steinselju  gróflega og hrærið samanvið ásamt restinni af baununum í heilu lagi. (mynd 2)
 9. Mótið 4 buff úr blöndunni og leggið á disk eða bretti kælið í 1-2 klst eða allt að sólarhring.
 10. Takið buffin úr kæli og veltið upp úr brauðraspi. (mynd 3)
 11. Steikið í 4-5 mínútur á hvorri hlið.

Tips og trikk

 •  Baunablandan getur verið frekar blaut, mér finnst best að nota einnota hanska þegar ég móta buffin svo hún klístrist ekki á hendurnar á mér. Svo þarf bara að fara varlega og vanda sig, þetta hefst allt að lokum!
 • Bauna- og grænmetisbuff geta verið viðkvæm og brotnað í sundur þegar maður reynir að snúa þeim. Til að forðast að enda með baunahræru á pönnunni frekar en baunabuff er gott ráð að nota tvo spaða til að snúa þeim. Þá er hverju buffi lyft upp á einn spaða, spaði 2 lagður ofaná þannig að buffið sé eins og samloka á milli þeirra, spöðunum svo snúið við þannig að spaði 2 snúi niður og buffinu svo rennt yfir á pönnuna aftur.
 • Athugið að vegna þess að notuð er fiskisósa eru þessi buff strangt til tekið ekki vegetarian matur. Til að gera þau vegetarian og vegan hæf má skipta fiskisósunni út fyrir soyasósu. Athugið líka að gult karrý getur innihaldið rækjumauk eða ansjósuextrakt.

 

Hunangssteikt rauðkál með sesamfræjum
Hunangssteikt rauðkál með sesamfræjum

Hunangssteikt rauðkál

1/4 rauðkálshaus (minna ef hausinn er mjög stór)
70-100 g baunaspírur
1 msk olía (ekki ólífuolía)
1 tsk sesamolía
2 tsk soyasósa
2 tsk hunang
2 msk sesamfræ

aðferð

 1. Skerið rauðkálið í þunna strimla.
 2. Hitið olíu og sesamolíu á lítilli pönnu við meðalhita.
 3. Steikið rauðkál og baunaspírur þar til það er farið að mýkjast. Hrærið vel í á meðan það steikist.
 4. Hellið soyasósunni út á pönnuna og hrærið vel. Eldið áfram í nokkrar mínútur.
 5. Ýtið kálinu til hliðar svo það sé autt svæði á pönnunni, hellið hunanginu þar (það ætti að ‘hvæsa’ aðeins þegar það lendir á pönnunni) og hrærið svo það þeki kálið.
 6. Stráið sesamfræjunum yfir.

 Tips og trikk

 • Mér finnst best að nota töng til að hræra með og velta kálinu almennilega um í soyasósunni og hunanginu.
Chili-limesósa
Chili-limesósa

Chili- limesósa

1 vorlaukur (græni hlutinn)
ferskur kóríander, ca. 1 msk saxaður
1/8 tsk chiliflögur (þær eru sterkar! Notið frekar minna en meira til að byrja með)
1/2 tsk fiskisósa
safi úr 1/2 lime
1 dl sýrður rjómi

aðferð

 1. Skerið vorlauk og kóríander og setjið í litla skál ásamt chiliflögum, fiskisósu og limesafa.
 2. Látið standa í kæli í 30 mínútur.
 3. Hrærið sýrða rjómann samanvið.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s