Provencal kjúklingur í hægsuðupotti

Nú eru sko spennandi hlutir að gerast í eldhúsinu! Mig hefur lengi langað til að eignast hægsuðupott, þá týpu sem á ensku kallast crock-pot eða dutch oven og nú um helgina varð þessi eldhúsdraumur minn að veruleika þegar við fjárfestum í fagurrauðum Pyrex steypujárnspotti.

Svo fallega rauður!
Svo fallega rauður!

Þetta er nú samt eiginlega alveg kolrangur árstími til að fá sér svona græju því þessir pottar eru langbestir til að gera matarmiklar súpur, kássur og pottrétti sem eiga betur heima í vetrareldhúsinu þegar gott er að fá smá hita í kroppinn innanfrá, heldur en á sumrin þegar hitinn gerir það að verkum að mann langar bara í eitthvað létt og ljúft. Engu að síður er ég búin að prófa pottinn tvisvar í sumarhitanum og ég er alveg hundrað prósent viss um það að það verður aldrei séð eftir þessum kaupum!

Ég gerði kjúklingarétti í bæði skiptin. Annars vegar kjúklingabringur í sinnepssósu og hins vegar útgáfu af Provencal kjúklingi með lærbitum á beini. Í báðum tilfellum var kjúklingurinn svo dásamlega vel eldaður og áferðin á honum var ólík öllu sem ég hef áður gert í eldhúsinu; kjötið var fullkomlega mjúkt og nánast datt í sundur þegar maður kom við það með gafflinum… Tvö skipti og ég skil bara ekki hvernig ég hef komist af í eldhúsinu í öll þessi ár án þess að eiga svona pott!

Í tilefni þessa er uppskrift dagsins að sjálfsögðu hægsuðuuppskrift og athugið að hægsuðuuppskriftir fá sérflokk í dálkinum hérna til hliðar.
Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskriftinni að Provencal kjúklingnum, sem á rætur að rekja til suðurhluta Frakklands. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið mikið fyrir Miðjarðarhafsmatargerð hingað til. Það er of mikið af brögðum þar sem mér hefur bara ekki fundist vera neitt sérstaklega spennandi en það er sko engin lygi að bragðlaukarnir breytast með aldrinum (eins og þeir sjá sem vita af kanil- og kóríander ‘fóbíunni’ sem ég hafði hér á árum áður!). Ég hef t.d. aldrei verið mikið fyrir ólífur, hef alveg smakkað þær og langar virkilega til að finnast þær góðar en hingað til hefur tungan ekki verið sammála huganum. Í þessu tilfelli eru það þó ólífurnar sem virkilega ‘gera’ réttinn og ég er virkilega glöð yfir því að ég hafi ekki sleppt þeim, eins og mig langaði að gera þegar ég eldaði þetta í fyrsta skipti! Annars er þessi réttur mjög bragðmildur en þó kraftmikill og ætti að henta fyrir alla.

Provencal kjúklingur
Provencal kjúklingur
Laukur og hvítlaukur í pottinum
Laukur og hvítlaukur – alltaf góð byrjun!
Kjúklingurinn kominn í pottinn
Kjúklingurinn kominn í pottinn
Allt tilbúið!
Allt tilbúið!

Provencal kjúklingur

– fyrir 2

olía til steikingar
2 laukar
4-5 hvítlauksrif
1 msk þurrkað oregano
2 tsk þurrkað basil
2 tsk tómatkraftur (ríflegar)
2/3 b þurrt hvítvín
200 ml kjúklingasoð (eða vatn og kraftur)
8-10 konfekt tómatar
8 döðlur
4-5 kjúklingalæri með beini
salt og pipar
2 lárviðarlauf
1/2 kúrbítur
1 msk kornsterkja
3 msk vatn
10-12 Kalamata ólífur
fersk steinselja

aðferð

 1. Skerið laukinn í helminga og svo í sneiðar. Skerið hvítlaukinn í tvennt langsum og svo í sneiðar.
 2. Hitið olíu (1-2 msk) í hægeldunarpottinum og steikið laukinn og hvítlaukinn ásamt oregano og basil við meðalhita.
 3. Þegar laukurinn er aðeins að byrja að brúnast, hrærið þá tómatkraftinum útí og eldið í 1-2 mínútur til viðbótar.
 4. Hellið hvítvíninu útí og látið sjóða niður í 4-5 mínútur, hrærið þá kjúklingasoðinu samanvið.
 5. Skerið tómatana í fjórðunga og saxið döðlurnar smátt, bætið hvoru tveggja útí pottinn.
 6. Kryddið kjúklingalærin með salti og pipar og leggið þau ofan í pottinn.
 7. Setjið lárviðarlaufin útí.
 8. Setjið lokið á pottinn, lækkið hitann og látið malla í 2 tíma.
 9. Hrærið saman kornsterkju og vatn.
 10. Afhýðið kúrbítinn og skerið í teninga.
 11. Takið kjúklingabitana uppúr pottinum og hrærið sterkju, kúrbít og ólífum útí pottinn.
 12. Setjið kjúklingabitana í aftur og látið sjóða áfram í 20-30 mínútur.
 13. Saxið steinseljuna gróft og stráið yfir kjúklinginn áður en hann er borinn fram.

Tips og trikk

 • Berið fram með pasta eða hrísgrjónum, fersku salati og góðu brauði.
 • Ef þið finnið ekki Kalamata ólífur má skipta þeim út fyrir svartar ólífur.
 • Athugið að þessi hægsuðuuppskrift á við hægsuðupott sem stendur á eldavélarhellu. Ef notaður er rafmagns-, keramik- eða leirpottur þarf að aðlaga uppskrift og aðferð að þeim potti sem notaður er.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s