Ætiþistlapestó

Ætiþistlapestó með valhnetum og sólþurrkuðum tómötum
Ætiþistlapestó með valhnetum og sólþurrkuðum tómötum

Fyrir nokkru birti ég uppskrift að fylltum kjúklingabringum þar sem fyllingin samanstóð af ætiþistlapestói og rjómaosti. Í þeirri færslu lofaði ég uppskrift að heimagerðu ætiþistlapestói og efni það loforð hér með!

Pestó er einn af þessum hlutum sem ég kynntist ekki almennilega fyrr en ég var farin að nálgast fullorðinsaldur. Ég veit ekki alveg hvort það fékkst bara ekki á Íslandi fyrr en seint og um síðir eða hvað en ég man allavega ekki eftir því í mínum matarorðaforða fyrr en ég var allavega komin vel inn í táningsárin. Þá voru líka bara til tvær tegundir; grænt og rautt! Með tímanum fór maður svo að sjá fleiri tegundir og að lokum tók ég stökkið og gerði mitt eigið græna pestó. Fyrsta tilraun heppnaðist ekki vel, það man ég! En síðan þá hef ég gert alls konar pestó, sum hver mjög vel heppnuð en ég er ekki frá því að þetta hérna sé pínu uppáhalds. Það er mjög bragðmikið en einhvern vegin er það samt þannig að það yfirgnæfir aldrei bragðið af því sem leikur aðalhlutverkið í máltíðinni.

Þetta pestó nota ég sem bragðgjafa í kjötrétti og sósur, set það útá pasta og í salöt og stelst jafnvel stundum í krukkuna og fæ mér smá smakk með skeið!

Ég mæli eindregið með því að allir prófi að minnsta kosti einu sinni að gera heimagert pestó, það er eitt af því sem allir ættu að geta gert og það eykur eldhússjálfstraustið að vita að maður getur gert svona hluti!

Tilbúið til blöndunar
Tilbúið til blöndunar

Ætiþistlapestó

– um 2-3 dl af pestó

1 dós ætiþistlar (um 250 g)
klípa af salti
2 msk + 3/4 dl ólífuolía
50 g valhnetur
1/2 skallot laukur
1 hvítlauksrif
5-7 kalamata ólífur
40 g sólþurrkaðir tómatar
ferskt basil og steinselja (sjá tips og trikk hér að neðan fyrir magn)
1 tsk tómatkraftur
ca. 15-20 g Parmesan

aðferð

 1. Hitið ofninn í 220°C.
 2. Sigtið vökvann frá ætiþistlunum og þerrið þá aðeins með pappír.
 3. Penslið eldfast mót með olíu, setjið ætiþistlana í og ‘sullið’ restinni af 2 msk af ólífuolíu yfir þá!
 4. Stráið salti yfir og setjið mótið í miðjan ofninn, bakið þar til ætiþistlarnir eru farnir að brúnast (um 10-15 mínútur). Látið kólna.
 5. Ristið valhneturnar á þurri pönnu.
 6. Skerið skallot lauk og hvítlauk gróflega.
 7. Fjarlægið steinana úr ólífunum ef þeir eru til staðar.
 8. Saxið sólþurrkuðu tómatana gróft.
 9. Setjið ætiþistla, valhnetur, skallot lauk, hvítlauk, ólífur, sólþurrkaða tómata, basil, steinselju og tómatkraft í matvinnsluvél og maukið saman.
 10. Ef mögulegt er, hafið matvinnsluvélina í gangi og bætið ólífuolíunni útí í mjórri bunu, hellið henni annars út í í tveimur hollum og hrærið á milli.
 11. Rífið Parmesan á fínu rifjárni og hrærið samanvið.
 12. Setjið í glerkrukku og geymið í kæli.

Tips og trikk

 • Til að mæla magnið af basil og steinselju nota ég 2/3 bollamál, sem er rétt rúmlega 1,5 dl.  Ég tek fersk basillauf og þjappa þeim niður þar til málið er rétt rúmlega hálffullt og þjappa svo steinselju ofan á þar til það er fullt.
 • Mér (sem finnst ólífur ekkert spes) finnst alveg nauðsynlegt að nota kalamata ólífur því þær eru mildar og aðeins sætari en aðrar ólífur. Ef þær finnast ekki má þó nota venjulegar svartar ólífur eða sleppa þeim (en þá er gott að salta með smá klípu af góðu, grófu salti).
 • Ég nota þurrkaða sólþurrkaða tómata sem eru lagðir í bleyti fyrir notkun, það er að segja þeir koma ekki úr krukku með olíu og mæli með þeim ef þeir finnast. Ef ekki, má nota tómata úr krukku í staðinn.
 • Ferskt pestó geymist í ca. 2 vikur í kæli en hægt er að lengja geymsluþolið með því að frysta það, t.d. í klakaformum.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s