Langa í appelsínu- og kryddjurtahjúp

Eins og ég hef minnst á áður er úrvalið af fiski í verslunum bæjarins sem við búum í ekkert sérlega glæsilegt. Nú er hins vegar farið að rofa til í þessum efnum, því ég er búin að komast að því að það er hægt að kaupa ferskan fisk í ‘fiskbílnum’ sem er farinn að hafa viðkomu hérna í bænum tvisvar í viku. Þvílík dýrðarinnar dásemd fyrir Íslendingana!

Langa í appelsínu- og kryddjurtahjúp
Langa í appelsínu- og kryddjurtahjúp

Úrvalið í fiskbílnum er ansi gott en nú verð ég að viðurkenna að þó ég tali dönsku alveg ágætlega þá hef ég hingað til ekki lagt það á mig að læra heiti mismunandi fisktegunda á þessu blessaða tungumáli. Þessu verð ég að ráða bót á svo ég viti nú hvað ég á að kaupa og hvað verður í matinn; ég meina.. søtunge, mørksej, multe… nú þarf að leggjast yfir orðabækur!

Það fer þó ekkert á milli mála hvað ‘lange’ þýðir og í fyrsta skipti sem ég nýtti mér þjónustu fiskbílsins keypti ég vænt stykki af löngu og eldaði á þennan frísklega sumarmáta. Það er þó hægt að nota flestan hvítan fisk í þennan rétt svo endilega prófið með ýsu, þorski eða öðrum þeim fiski sem ykkur finnst góður.

Með þessu hafði ég bakaðar eggaldinsneiðar með sítrónuvinaigrette og fetaosti og læt uppskriftina að því fylgja með.

Langa

Langa

 

Langa í appelsínu- og kryddjurtahjúp

– fyrir 2

400 g langa
2 msk olía
1 tsk hunang

hjúpur
1 dl brauðrasp
10-15 g parmesan, rifinn á fínu rifjárni
20 g furuhnetur, saxaðar gróft
börkur af 1/2 appelsínu, rifinn á fínu rifjárni
2-3 msk fersk steinselja, söxuð
1-2 msk ferskur kóríander, saxaður
1/2 tsk þurrkað timjan
1/2 tsk þurrkað majoram
klípa af chiliflögum eða 1/4 tsk cayennepipar
salt og pipar

aðferð

 1. Hitið ofninn í 190°C
 2. Bein- og roðhreinsið lönguna ef þess þarf og skerið í stykki.
 3. Hrærið saman olíu og hunangi og penslið á fiskstykkin. Látið sitja í 10-15 mínútur.
 4. Blandið saman öllu sem þarf í hjúpinn á djúpum diski.
 5. Leggið álpappír á bökunarplötu og penslið með örlítilli olíu.
 6. Veltið fisknum upp úr hjúpblöndunni og leggið á plötuna.
 7. Bakið í 15 mínútur.

Tips og trikk

 • Mér finnst koma best út að bera fram kúskús með þessum rétti, finnst það passa betur en t.d. hrísgrjón eða kartöflur.
 • Þegar appelsínubörkur er rifinn þarf að passa að rífa hann ekki of djúpt. Ef rifið er mikið niður í hvíta hlutann kemur biturt bragð með sem er ekkert sérstaklega gott.
 • Þegar fiskurinn er kominn á plötuna er ágætt að strá restinni af hjúpnum yfir bitana svo ekkert fari til spillis!
Eggaldin-9126
Eggaldinsneiðar með sítrónuvinaigrette og fetaosti

Bakaðar eggaldinsneiðar með sítrónuvinaigrette og fetaosti

1 eggaldin
salt
olía
20-30 g fetaostur í olíu (olían þó ekki notuð)
ferskar kryddjurtir (má sleppa)

sítrónuvinaigrette
1/4 skallot laukur
1/2 lítið hvítlauksrif
1 msk sítrónusafi
1/4 tsk cumin
salt og pipar
2 msk ólífuolía

aðferð

 1. Notið grænmetisskrælara til að flysja fjórar rendur langsum af hýðinu á eggaldininu.
 2. Skerið eggaldinið í þykkar sneiðar (1,5-2 cm), saltið þær vel og mikið og leggið til hliðar í ca. 30 mínútur.
 3. Hitið ofninn í 220°C.
 4. Setjið álpappír á bökunarplötu og penslið hann með örlitlu af olíu.
 5. Skolið eggaldinsneiðarnar vel og þerrið.
 6. Leggið sneiðarnar á plötuna og setjið inn í ofn.
 7. Bakið í 20 mínútur, eða þar til eggaldinsneiðarnar eru farnar að taka smá lit.
 8. Lækkið þá hitann niður í 190°C, snúið sneiðunum við og bakið í ca. 15 mínútur til viðbótar.
 9. Skerið laukinn smátt, pressið hvítlaukinn og setjið hvort tveggja í litla skál ásamt sítrónusafa. Látið standa í 15 mínútur.
 10. Hrærið cumin, salti, pipar og olíu saman við.
 11. Stappið fetaostinn létt með gaffli.
 12. Setjið eggaldinsneiðarnar á fat og dreifið vinaigrettunni, fetaosti og kryddjurtum (ef notaðar) yfir.

Tips og trikk

 • Það er ekki nauðsynlegt að flysja eggaldinið en hýðið er stundum seigt og erfitt að skera í gegnum það, þá er ágætt að flysja það svona.
 • Eggaldin eru merkilega vökvamikil; aldinkjötið í þeim er svampkennt og á það til að maukast við eldun. Saltið dregur eitthvað af vökvanum úr eggaldininu og það fær betri áferð þegar það er bakað.
 • Ef þið eigið mortél þá kemur líka mjög vel út að þurrrista heil cuminfræ og steyta þau í duft til að nota í vinaigrettuna.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s