Jógúrtís

Vissir þú hvað það er auðvelt að gera jógúrtís?!

Vanillujógúrtís með granateplasýrópi
Vanillujógúrtís með granateplasýrópi

Það er svosem ekkert mikið mál að gera hefðbundinn rjómaís, hann gerum við til dæmis fyrir jólin en þegar sumarið er gengið í garð er rjómaísinn eiginlega bara of þungur og gefur ekki þessa léttu, svalandi tilfinningu sem vantar á góðum sumardegi.

Maðurinn minn gaf mér í jólagjöf í fyrra alveg dásamlega bók eftir Morten Heiberg, sem heitir Heibergs IS og er, eins og nafnið gefur til kynna, full af ísuppskriftum. Í þessari bók er að finna fjölda girnilegra uppskrifta, bæði rjómaís, sorbet og jógúrtís og líka sósur og skemmtilegt meðlæti með ísnum.

Einn sérlega heitan dag náði ég í bókina úr eldhúshillunni og ákvað að nú ætlaði ég að gera eitthvað gott! Þegar ég fletti í gegn sá ég að fyrsta uppskriftin í jógúrtískaflanum er vanilluís, borinn fram með granateplakjörnum í sýrópslegi.

Hindberjajógúrtís með lakkrísdufti
Hindberjajógúrtís með lakkrísdufti

Um leið og ég sá þetta mundi ég eftir því að í ísskápnum stóð næstum full ferna af jógúrt sem ég hafði keypt til að nota í köku nokkru áður. Og fyrir einhverja furðulega tilviljun hafði ég keypt granatepli nokkrum dögum fyrr án þess að hafa hugmynd um hvað ég ætlaði að gera við það! Það tók ekkert langan tíma að ákveða að þessi uppskrift yrði prófuð.

Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst útgáfan hans Heibergs full sæt svo ég gerði smá breytingar á uppskriftinni og birti hér mína útgáfu.

En þar með var ísævintýrinu ekki lokið, það má kalla þetta nýja sumar-æðið okkar og mér finnst hrikalega gaman að prófa mig áfram með bragðtegundir. Ég ætla að byrja á því að birta tvær einfaldar uppskriftir og svo getur vel verið að það bætist meira við þegar líður á sumarið!

Vanillujógúrtís
Vanillujógúrtís

Vanillujógúrtís með granateplasýrópi

1 vanillustöng
500 ml hrein jógúrt (helst ekki með minna en 3,5% fituhlutfall)
50 g sykur
40 g flórsykur
1 1/2 msk hunang

aðferð

 1. Skerið vanillustöngina í tvennt langsum og skafið fræin úr.
 2. Setjið öll innihaldsefnin í hrærivélarskál og þeytið vel saman.
 3. Hellið í frostþolið form sem er nógu vítt til þess að  dýptin á ísblöndunni verði ekki meiri en 2-3 cm.
 4. Frystið í 1,5 klst, eða þar til jaðrarnir eru vel frosnir en ísblandan mjúk í miðjunni.
 5. Þeytið aftur og setjið aftur í formið.
 6. Frystið aftur í ca. 2 klst.
 7. Þeytið blönduna vel og hellið í það ílát sem þið ætlið að geyma ísinn í.
 8. Frystið í 1-2 klst til viðbótar áður en ísinn er borinn fram.
Vanillujógúrtís með granateplasýrópi
Vanillujógúrtís með granateplasýrópi

Granateplasýróp

1/2 dl sykur
1/2 dl vatn
1/4 vanillustöng, ekki með fræjum
granatepli

aðferð

 1. Setjið sykur, vatn og vanillustöng í lítinn pott og látið suðuna koma upp við vægan meðalhita.
 2. Látið sjóða í 5-6 mínútur.
 3. Skerið granateplið í bita og takið fræin úr.
 4. Setjið fræin í hitaþolna skál og hellið sýrópinu yfir (fjarlægið vanillustöngina).
 5. Geymið í kæli.
Hindberjajógúrtís
Hindberjajógúrtís

Hindberjajógúrtís

1/4 vanillustöng
125 g hindber
500 ml hrein jógúrt (helst ekki með minna en 3,5% fituhlutfall)
30 g sykur
20 g flórsykur
1 msk hunang

aðferð

 1. Skerið vanillustöngina í tvennt langsum og skafið fræin úr.
 2. Merjið hindberin með skeið í gegnum fínt vírasigti og safnið maukinu í skál.
 3. Setjið hindberjamaukið í hrærivélarskál ásamt öllum öðrum innihaldsefnum og þeytið vel saman.
 4. Hellið í frostþolið form sem er nógu vítt til þess að dýptin á ísblöndunni verði ekki meiri en 2-3 cm.
 5. Frystið í 1,5 klst, eða þar til jaðrarnir eru vel frosnir en ísblandan mjúk í miðjunni.
 6. Þeytið aftur og setjið aftur í formið.
 7. Frystið aftur í ca. 2 klst.
 8. Þeytið blönduna vel og hellið í það ílát sem þið ætlið að geyma ísinn í.
 9. Frystið í 1-2 klst til viðbótar áður en ísinn er borinn fram.
Hindberjajógúrtís með lakkrísdufti
Hindberjajógúrtís með lakkrísdufti

Tips og trikk

 • Þó ég tali um hrærivél í leiðbeiningum má vel nota góðan handþeytara til að hræra ísinn.
 • Ef ísinn er frosinn í gegn þarf hann að sitja á borði í 15-20 mínútur áður en hann er borinn fram.
 • Ég nota MIXTUR form frá IKEA til að frysta ísinn í. Formið er 27x18cm og hentar mjög vel fyrir þær tímasetningar sem eru gefnar upp í leiðbeiningum. Ef þið notið minna eða stærra form gæti þurft að bíða skemur eða lengur á milli þess sem ísinn er þeyttur upp, það þarf að gera áður en ísinn er gegnfrosinn og harður.
 • Þegar ég nota vanillufræ finnst mér þægilegt að blanda þeim samanvið smá flórsykur þegar ég er búin að skafa þau úr stönginni. Fræin klístrast svolítið saman og flórsykurinn hjálpar upp á að þau dreifist betur um skálina við þeytingu.
 • Það kemur smá safi úr granateplinu þegar það er skorið, það er tilvalið að hella honum útí sýrópið á meðan það sýður, gefur smá lit og bragð!
 • Hindber og lakkrís passa vel saman, ég stráði lakkrísdufti yfir ísinn sem var mjög gott og stefni á að birta uppskrift að lakkrís íssósu fljótlega!
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s