Mini-Kirsuberjaostakökur

Ég fór í sumarfrí!

Sumarið hérna í Danmörku er búið að vera alveg yndislegt, ég kúplaði mig bara alveg út úr öllu sem heitir daglegt amstur og er búin að eiga alveg frábæra afslöppunardaga bæði hérna heima og í heimsókn hjá vinafólki í Kristiansand í Noregi. Það gerist held ég ekki mikið betra.

En það er kominn tími til að snúa aftur í eldhúsið, bretta upp ermar og gera eitthvað gott. Úr kirsuberjum! Fyrir nokkru skrapp ég nefnilega ásamt skemmtilegum skvísum út í guðsgræna náttúruna og tíndi kirsuber. Á svæðinu er slatti af kirsuberjatrjám af mismunandi tegundum svo afraksturinn var ekki alveg eins og berin sem maður kaupir úti í búð en góð voru þau!

Villt kirsuber
Villt kirsuber

(Nei, þessi gulu eru ekki óþroskuð, þessi tegund er gul á litinn!)

Sumir veigra sér við eða nenna ekki að nota fersk kirsuber í matargerð því áður en hægt er að nota þau þarf að fjarlægja steinana úr berjunum. Það getur verið smá maus og áður en ég sný mér að sjálfri uppskriftinni ætla ég að sýna ykkur hvernig ég geri þetta:

Cherries-9241

Leynivopnið er trekt af minnstu gerð sem er komið fyrir á hvolfi á botni skálar.

Cherries-9245

Berjunum er svo stungið á endann á trektinni þannig að stilksopið snúi niður, smá þrýstingur losar steininn út um hinn endann án þess að það fylgi of mikið aldinkjöt og berin fara beint í skálina, þetta gæti varla verið einfaldara!

Ef ykkur líst ekki á þetta þá er hægt að finna fullt af öðrum sniðugum aðferðum með hjálp Google.

Og þá að uppskriftinni sjálfri.

Cherries-9249
Mini-Kirsuberjaostakökur (11 kökur af 12.. freistingin varð of mikil!)

Ég var lengi að ákveða hvort ég ætlaði að gera þessar ostakökur eða pæ en á endanum urðu ostakökurnar ofaná, aðallega vegna þess að ég átti bæði Mascarpone ost og niðursoðna mjólk sem biðu eftir að verða að einhverju góðu. Pæið verður bara að bíða betri tíma!
Svona mini-ostakökur eru frábærar sem eftirréttur í matarboði, nú eða á kökuhlaðborð í fjölskylduboðinu. Já eða bara til að eiga í ísskápnum og grípa í þegar mann langar í eitthvað syndsamlega gott!

Mini-Kirsuberjaostakökur
Mini-Kirsuberjaostakökur

 

Mini-Kirsuberjaostakökur

– ca. 12 stykki

botn
65 g hafrakex
50 g saltstangir
45 g smjör

kirsuberjacompote
250 g kirsuber
3 msk möndlulíkjör eða koníak
3 msk sykur

ostafylling
300 g Mascarpone ostur
3/4 dl niðursoðin mjólk (condensed milk)
fræ úr 1/2 vanillustöng
1 egg
1 eggjarauða

aðferð

botn

 1. Malið hafrakex og saltstangir í fína mylsnu.
 2. Bræðið smjörið og hrærið saman við mylsnuna.
 3. Takið til 12 muffinsform í stærra lagi og setjið 1 vel kúfaða matskeið af blöndunni í botninn á hverju þeirra. Þrýstið vel niður í formið, t.d. með litlu skotglasi eða mæliglasi með flötum botni.

kirsuberjacompote

 1. Fjarlægið steinana úr kirsuberjunum og saxið þau gróft.
 2. Setjið kirsuberin í lítinn pott ásamt líkjör og sykri, sjóðið saman við vægan hita þar til vökvinn rennur ekki af skeið sem stungið er ofan í pottinn.
 3. Ausið ca. matskeið af berjum og vökva yfir kexbotnana. Deilið því sem eftir er á milli formanna.

ostafylling

 1. Hitið ofninn í 190°C áður en hafist er handa við ostafyllinguna.
 2. Þeytið saman Mascarpone og niðursoðna mjólk.
 3. Skafið fræin úr vanillustönginni og bætið útí ásamt egginu og eggjarauðunni.
 4. Þeytið vel saman.
 5. Fyllið muffinsformin með ostablöndunni, alveg upp að brún ef blandan endist til þess.
 6. Bakið í 15-20 mínútur, eða þar til toppurinn á kökunum er mattur og þær hristast ekki til ef platan er hreyfð til.

Tips og trikk

 • Í stað líkjörs eða koníaks má vel nota appelsínusafa í compote-ið.
 • Fyrir svona bakstur finnst mér best að nota muffinsform sem eru með smá brún, svokölluð amerísk form. Þau standa sjálf og renna ekki út og því hægt að láta þau standa á venjulegri bökunarplötu í undirbúningi og bakstri. Endilega reynið að finna þau ef þið ætlið að gera mini ostakökur!
 • Það má líka nota frosin kirsuber í stað ferskra, það kemur ekki niður á bragðgæðum.
 • Ostakökur geymast í allt að viku í kæli í góðu, þéttu íláti.
Mini-Kirsuberjaostakökur
Mini-Kirsuberjaostakökur
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s