Mér finnst eins og það sé komið of langt síðan ég birti síðast grænmetisuppskrift. Eins gott að bæta úr því!
Í eldhúsinu mínu er alveg nauðsynlegt að elda og borða grænmetisrétti inn á milli. Ég veit ekki með ykkur, en þegar ég borða eldaða máltíð sem inniheldur ekki kjöt þá kemur allt öðruvísi seddutilfinning í magann þegar maður er búinn að borða og ég finn alveg hvað þetta er gott fyrir kroppinn! Uppskrift dagsins er þó þannig gerð að þó hún sé rosalega góð ein og sér, þá passar hún líka mjög vel sem meðlæti með kjöti (á myndinni hér fyrir neðan var t.d. borinn fram kjúklingur með) og er því sérstaklega góð fyrir þá sem vilja kannski auka vægi grænmetis og bauna í daglegri matargerð án þess þó að sleppa kjötinu alveg. Ég ætla líka að bæta við uppskrift að sætum, bökuðum gulrótum sem eru góðar með öllu held ég bara, svei mér þá!

Heitt linsubaunasalat með fetaosti
– fyrir 2 (3-4 sem meðlæti)
2 dl grænar linsubaunir
5 dl vatn
1/2 kjúklinga- eða grænmetisteningur
1/2 rauðlaukur
2 væn hvítlauksrif
3 msk ólífuolía
2 msk sítrónusafi
1 tsk cumin
salt og pipar
ferskt spínat, góð handfylli
2-3 msk gróft söxuð fersk steinselja
30-40 g fetaostur
aðferð
- Setjið linsubaunir, vatn og tening í pott og sjóðið þar til linsurnar eru mjúkar.
- Skerið rauðlauk og hvítlauk smátt og hrærið saman við ólífuolíu og sítrónusafa. Kryddið með cumin, salti og pipar.
- Hrærið fulleldaðar baunirnar samanvið.
- Skerið spínatið gróflega og blandið saman við baunirnar ásamt steinseljunni.
- Stappið fetaostinn með gaffli og dreifið yfir hvern skammt fyrir sig.
Sætar gulrætur
1 msk ólífuolía
1/2 tsk timjan
1/2 tsk paprikuflögur
salt og pipar
4 meðalstórar gulrætur
1/2 msk hunang
aðferð
- Hitið ofninn í 200°C.
- Hrærið saman ólífuolíu, timjan, paprikuflögur, salt og pipar og veltið gulrótunum upp úr blöndunni.
- Leggið gulræturnar í eldfast mót eða á álpappírsklædda ofnplötu.
- Bakið gulræturnar í 15 mínútur, snúið þeim þá og bakið áfram í 10 mínútur.
- Takið þá gulræturnar út og látið hunangið leka yfir þær.
- Kveikið á grillstillingu ofnsins og setjið gulræturnar aftur inn í 5-7 mínútur.
Tips og trikk
- Endilega reynið að ofsjóða ekki linsubaunirnar, það klikkaði aðeins hjá mér síðast þegar ég eldaði þennan rétt eins og sést kannski á myndinni!
- Það má alveg prófa sig áfram með grænmeti í þetta salat, t.d. papriku, sellerí, vorlauk, radísur og allskonar annað!
- Gróflega útreiknað inniheldur salatið sjálft um 700 kkal.