Pestó og pasta

Það er gott að eiga góða nágranna!

Á hæðinni fyrir ofan okkur býr hún Ulla, eldri dama sem hefur afskaplega gaman af hvers konar garðrækt og um daginn kom hún færandi hendi með kryddjurtir og kirsuberjatómata sem hún hefur sjálf ræktað á svölunum sínum í sumar. Svalirnar hennar eru reyndar nær því að vera stærðarinnar verönd þar sem Ulla hefur raðað fjöldanum öllum af blómapottum, bæði fyrir skraut- og matjurtir, það er æðislegt að sjá hvað hún er dugleg að rækta þarna. Ég öfunda hana pínu því ég er með þá allra ó-grænustu fingur sem fyrirfinnast en er auðvitað mjög þakklát fyrir að hún skuli vilja deila þessu með okkur! Og þessi sending frá henni kom sér heldur betur vel þar sem ég var akkúrat að hugsa um að gera pestó og þarna duttu hráefnin upp í hendurnar á mér í nokkuð bókstaflegri merkingu!

Ég á yfirleitt alltaf pestó í ísskápnum, oftast er það aðkeypt en einstaka sinnum dríf ég mig í að gera það sjálf (t.d. ætiþistlapestóið um daginn) og það verður bara að segjast að það er miklu ferskara og betra að gera sitt eigið (eins og á við um svo margt annað). Í þetta tiltekna pestó notaði ég spínat sem grunn og bragðbætti með kryddjurtum. Sumar grænar pestóuppskriftir nota eingöngu kryddjurtir (flestar nota basil sem aðalhráefni) en spínatið gefur góðan karakter í pestóið; pínu beiskan en samt mildan undirtón.

Og þegar maður er búinn að gera pestó þarf auðvitað að gera eitthvað við það svo hér fyrir neðan fylgir einföld uppskrift að sjávarréttapasta sem tekur ekki lengri tíma að útbúa en það tekur að sjóða pastað!

Spínat- og kryddjurtapestó
Spínat- og kryddjurtapestó

Spínat- og kryddjurtapestó

3 b ferskt spínat
3/4 b fersk basillauf
1/4 b fersk steinselja
1/4 b gróft klipptur graslaukur
2 msk ferskt oregano
1 msk ferskt timjan
20 g furuhnetur
20 g valhnetur
1 vænt hvítlauksrif
1 dl ólífuolía
2 msk sítrónusafi
20 g fínt rifinn parmesan ostur
salt og pipar eftir smekk

aðferð

 1. Setjið spínat, basil, steinselju, graslauk, oregano og timjan í matvinnsluvél og maukið (í smærri skömmtum ef þess þarf).
 2. Ristið furuhnetur og valhnetur á þurri pönnu og setjið útí matvinnsluvélina ásamt hvítlauk, sítrónusafa og helming af ólífuolíu. Blandið öllu saman.
 3. Hrærið restinni af ólífuolíunni og  parmesan osti samanvið með sleif og smakkið til með salti og pipar.

Tips og trikk

 • Ég nota bollamál við mælingar á helstu innihaldsefnum einfaldlega vegna þess að bollamálin eru af þægilegri stærð. Þetta þarf ekki að vera mjög nákvæmt, bara setja eins mikið af og kemst í málið en það þarf ekkert að troða og það má alveg vera smá kollur ofaná.
 • Í staðinn fyrir að nota bæði furuhnetur og valhnetur má vel nota 40g af öðru hvoru.
 • Pestó geymist í ca. 2-3 vikur í kæliskáp en hægt er að lengja líftíma þess með því að frysta það, t.d. í klakaformum.
Sjávarréttapasta með spínat- og kryddjurtapestó
Sjávarréttapasta með spínat- og kryddjurtapestó

Sjávarréttapasta

– fyrir 2

150-180 g pastalengjur (t.d. linguine eða spaghetti, þyngd miðað við þurrt pasta)
3-4 msk grænt pestó
20-30 g smjör
250 g tígrisrækjur
1 1/2 tsk þurrkuð steinselja
2 tsk sítrónusafi
salt og pipar

6-8 kirsuberjatómatar

aðferð

 1. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum.
 2. Á meðan pastað sýður, hitið smjörið á pönnu og steikið rækjurnar á góðum hita í ca. 2-3 mínútur á hvorri hlið, kryddið með steinselju, salti og pipar.
 3. Kreistið sítrónusafann útá þegar rækjunum er snúið við.
 4. Takið pönnuna af hitanum þegar rækjurnar eru tilbúnar.
 5. Hellið vatninu af pastanu og setjið í skál. Hrærið pestóinu samanvið og skiptið upp í hæfilegar skammtastærðir á diska.
 6. Skerið tómatana í helminga.
 7. Dreifið tómötum og rækjum yfir pastað á diskunum og berið fram.

Tips og trikk

 • Það má að sjálfsögðu nota hvers konar grænt pestó í þennan rétt, ekki bara það sem er hérna fyrir ofan.
 • Í staðinn fyrir rækjur má líka nota t.d. litla humarhala eða blandaða sjávarrétti. Það má líka alveg nota venjulegar rækjur, þær notaði ég einmitt daginn sem ég eldaði og ljósmyndaði þennan rétt (það voru ekki til tígrisrækjur í hverfisbúðinni) en þá þarf að aðlaga eldunartímann aðeins. Mér finnst þó tígrisrækjurnar bestar!
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s