Mér finnst virkilega gaman að prófa mig áfram í matargerð undir asískum áhrifum en geri mér alveg fullkomlega grein fyrir því að hér á vesturlöndum erum við oftast mjög langt frá því sem gæti talist vera ‘ekta’ matargerð á asíska vísu. Ég sá það til dæmis mjög skýrt þegar ég vann á asískum veitingastað í Reykjavík fyrir nokkrum (ahem!) árum að það sem kokkarnir elduðu fyrir starfsfólkið í eldhúsinu var allt öðruvísi en það sem var á matseðlinum. Stundum var það girnilegt, stundum fitjaði maður upp á nefið og fann sér eitthvað að gera frammi í sal!
En ekta eða ekki, svona ‘sticky’ sesamkjúklingur er oftast tengdur við kínverska matargerð og einhverja útgáfu af honum er að finna á mjög mörgum kínverskum veitingastöðum í hinum vestræna heimi. Mér finnst hann rosa góður og það er virkilega einfalt að gera hann heima svo hér fáið þið mína uppskrift.

Sesamkjúklingur
– fyrir 2
sósa
4 msk hunang
4 msk soyasósa
3 msk sæt chilisósa
2 msk BBQ sósa
1/2 msk ostrusósa
2 hvítlauksrif
2 kjúklingabringur, skornar í bita
1 laukur
1/2 tsk engifer (ferskur eða maukaður)
100 g sveppir (má sleppa)
1 msk kornsterkja
2 msk vatn
2-3 msk sesamfræ
olía til steikingar
aðferð
- Setjið hunang, soyasósu, sæta chilisósu, BBQ sósu og ostrusósu í skál.
- Pressið hvítlauksrifin útí skálina og hrærið öllu saman. Leggið til hliðar.
- Skerið laukinn í sneiðar og mýkið á pönnu ásamt engifer.
- Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið þar til bitarnir eru hvítir að mestu.
- Setjið sveppina heila útá og veltið þeim aðeins um á pönnunni.
- Hellið sósunni yfir og látið suðuna koma upp.
- Hrærið saman kornsterkju og vatni og hrærið samanvið sósuna.
- Lækkið hitann og látið sjóða undir loki í ca. 10 mínútur, takið þá lokið af og látið sjóða í 5 mínútur til viðbótar.
- Blandið sesamfræjunum samanvið og berið fram.
Tips og trikk
- Þessi réttur inniheldur frekar hátt hlutfall af ráðlagri dagsneyslu af salti. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir saltneyslu geta minnkað saltmagnið með því að nota ‘low sodium’ soyasósu.
- Ef þið viljið hafa sósuna í sterkara lagi má bæta 1/4 tsk af chiliflögum útí.
- Ég mæli ekki með því að nota ólífuolíu í þennan rétt, hún er bragðmikil og hefur áhrif á bragðsamsetninguna. Ég nota sólblómaolíu og ca. teskeið af sesamolíu útí til að gefa smá auka úmpf.