Bauna- og brokkólíbuff

Ég er ein af þeim sem finnst ofboðslega þægilegt að gera matseðla fram í tímann. Reyndar er ég ekki aaalveg nógu dugleg við það, það vantar nokkra mánuði í 2014 Excel skjalið en mikið hrikalega léttir það lífið þegar maður druslast til að gera seðil; að þurfa ekki að ákveða hvort og hvað á að elda þann daginn heldur bara kíkja á skjalið góða sem hangir á ísskápnum og fara í búð tvisvar í viku eftir réttum hráefnum. Skipulagsperrinn í mér fær nettan sæluhroll þegar planið er komið úr prentaranum og hefur verið hengt upp á ísskápshurðina!

Ferlið er nokkurn veginn þannig að áður en ég fer að skrifa niður þá rétti sem fara á listann, þá ákveð ég hvaða týpu af mat ég ætla að elda á hverjum degi mánaðarins; kjöt-, fisk- eða grænmetisrétt. Það finnst mér góður rammi til að púsla svo inn í hvaða réttur getur farið hvar og hvar er hægt að samnýta hráefni og svona. Oftast er grænmetisfæði á borðum einu sinni í viku en maðurinn minn, sem fær alltaf sitt kjöt og notar dýrindis grænmetisrétti sem meðlæti, kom mér heldur betur á óvart um daginn þegar hann spurði mig hvort við gætum ekki haft 1-2 vikur alveg kjötlausar í nóvember! Þið getið rétt ímyndað ykkur að ég missti andlitið og hélt eitt augnablik að hann væri orðinn að svona ‘pod people’ og geimverur hefðu tekið yfir heilann í honum en ég hef ennþá ekki getað staðfest þá kenningu og síðustu tvær vikurnar í nóvember verða því grænmetisvikur á þessu heimili! Ég hef þó engar stóráhyggjur af honum því hann getur fengið góðan hádegismat í vinnunni og þar með sinn dagsskammt af kjöti.

Þetta verður bara spennandi og margt sem mig langar að prófa, það má því vonandi búast við nokkrum góðum grænmetisréttum á þessum síðum á næstunni og hér kemur létt upphitun; bauna- og brokkólíbuff, algjört uppáhald.

Bauna- og brokkólíbuff
Bauna- og brokkólíbuff

Bauna- og brokkólíbuff

6-8 stykki

1 dl grænar linsubaunir, þurrar
150 g brokkólí
200 g gulrætur
1 skallotlaukur
2 hvítlauksrif
2 vorlaukar
1 dós kjúklingabaunir (um 250 g soðnar baunir)
1 1/2 dl haframjöl
væn lúka fersk steinselja, söxuð gróflega
1 egg
1 1/2 tsk gróft salt (Maldon eða sambærilegt)
1 tsk paprikuduft
1 tsk cumin
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk þurrkað oregano
1/2 tsk kóríanderduft
1/4 tsk cayenne pipar
1 1/2 dl brauðrasp
olía til steikingar

aðferð

 1. Sjóðið linsubaunirnar þar til þær eru fulleldaðar (um 25-30 mínútur)
 2. Skerið brokkólíið í bita og sjóðið eða gufusjóðið þar til það er mjúkt.
 3. Rífið gulræturnar á grófu rifjárni, saxið skallotlauk, hvítlauk og vorlauk og steikið allt í smá olíu á pönnu þar til laukurinn fer að mýkjast og ilma!
 4. Maukið saman linsubaunir, brokkólí og gulrótarblönduna í matvinnsluvél (ef matvinnsluvélin þolir ekki hita, látið gulrótarblönduna þá kólna aðeins fyrir þetta skref)
 5. Stappið kjúklingabaunirnar gróflega með gaffli.
 6. Hrærið öllum hráefnum saman í skál og mótið buff í höndunum.
 7. Veltið buffunum upp úr raspi og steikið í 3-4 mínútur á hvorri hlið.

Tips og trikk

 • Berið fram t.d. með bulgur eða hýðishrísgrjónum, fersku grænu salati og kaldri sósu.
 • Það má svosem alveg setja kjúklingabaunirnar í matvinnsluvélina með því sem fer í hana en mér finnst gefa grófari og skemmtilegri áferð að stappa þær með gaffli.
 • Fullgerð blandan er frekar klístruð, mér finnst alltaf best að vera í einnota hönskum þegar ég móta buffin, ef þeir eru ekki við höndina er hægt að klæða hendurnar í litla plastpoka.
 • Buffin má frysta eftir eldun. Þegar á að hafa þau í matinn er best að þíða þau alveg og hita svo í ofni ca. 10-15 mínútur við 180°C
 • Ef blandan helst ekki saman, bætið þá 1 eggjarauðu útí.
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s