Jólin eru handan við hornið og því kominn tími til að huga að jóla- og jafnvel áramótamatnum!
Jólin eru hjá flestum í nokkuð föstum skorðum hvað varðar siði og venjur en sumir vilja alltaf eitthvað nýtt, aðrir eru kannski að leita að nýjum hefðum eða jafnvel byrja að halda sín eigin jól á eigin forsendum. Hverjar svosem aðstæðurnar eru, þá er þessi dásamlega kalkúnabringa hrikalega góð á hátíðarborðið. Og reyndar ekki bara um jól, þessi á vel við hvenær sem maður vill elda flotta máltíð sem lítur út fyrir að vera mun flóknari en hún er!
Ég er búin að hafa þessa í bakhöndinni í nokkur ár og það er alltaf jafn ljúft að bera hana fram. Portobello sveppirnir smellpassa með kjötinu og sætleikinn í pekanhnetunum gefur þetta síðasta úmpf sem þarf til að gera matarupplifunina að einhverju sérstöku. Þetta er reyndar ekki jólamaturinn hér á bæ, það er hnetusteik sem ég kem til með að gefa ykkur uppskrift að í næstu viku, en þessi kemur sterk inn um áramótin!

Kalkúnabringa með portobello og pekan fyllingu
– fyrir 4-5
1 kalkúnabringa, ca. 900 g
1 meðalstór laukur
2 vorlaukar
2 hvítlauskrif
3 portobello sveppir
80 g pekan hnetur
90 g mjúkt smjör (plús smá aukalega til steikingar)
handfylli ferskt basil
handfylli fersk steinselja
skvetta af sítrónusafa
salt og pipar
Best á allt (kryddblanda frá Pottagöldrum)
aðferð
- Saxið lauk, vorlauk og 1 hvítlauksrif smátt, hitið í örlitlu smjöri þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Takið af pönnunni og setjið í skál til hliðar.
- Skerið sveppina gróft og steikið í smjöri við frekar háan hita í nokkrar mínútur. Takið af og setjið í skálina með lauknum.
- Saxið pekan hneturnar og setjið útí skálina.
- Setjið smjörið í aðra skál, saxið kryddjurtirnar gróflega og pressið hvítlauksrif útí. Kreistið sítrónusafa útí og hrærið allt saman.
- Hrærið ca. 3/4 af smjörinu samanvið sveppina, laukinn og hneturnar, setjið klípu af salti og pipar með.
- Skerið vasa í bringuna og troðið fyllingunni í! Lokið með tannstönglum ef þess þarf.
- Nuddið restinni af smjörinu utaná bringuna, kryddið yfir með salti, pipar og Best á allt blöndunni.
- Setjið bringuna í eldfast mót eða í ofnskúffu og eldið við 190°C í 45 mínútur, hækkið þá í 220°C og eldið áfram í 10-15 mínútur.
- Opnið ofninn 2-3svar á meðan eldunartímanum stendur og ausið vökvanum sem safnast í botninn yfir kjötið.
Tips og trikk
- Það má líka alveg gera rúllu; þá er bringan skorin langsum en ekki alveg í sundur, fyllingin sett í sárið, kjötinu rúllað upp og bundið utanum með spotta/sláturgarni. Ef það er gert, má bæta ca. 10 mínútum við eldunartímann fyrir hækkun.
- Í staðinn fyrir Best á allt blönduna má alveg nota ykkar uppáhaldskryddblöndu.
- Það má fylla kalkúnabringuna fyrirfram og geyma í kæli í allt að 2 sólarhringa áður en hún er elduð.
- Ég mæli með því, ef notaðir eru tannstönglar til að loka kjötinu, að láta þá liggja í vatni í nokkrar mínútur fyrir notkun, þá brenna þeir ekki í ofninum
