Hafrasmellir

Ef eitthvað er jólahefð á mínu heimili þá eru það þessar kökur!

Upprunalega uppskriftin að hafrakökunum sjálfum kemur að mig minnir úr einum af fyrstu Nóa-Síríus jólabæklingunum en ég man ekki lengur hvenær eða hvernig það kom til að bæta kreminu á milli. Enda skiptir það svosem ekki máli, aðalatriðið er að hugmyndin varð til, varð að veruleika og þessar eru búnar að vera standard í jólabakstrinum í rúm 10 ár.

Það er pínu kúnst að gera þessar, það þarf að fylgjast mjög vel með ofninum því kökurnar dökkna og jafnvel brenna á einu augnabliki og svo þarf að meðhöndla þær varlega þegar kremið er sett á því þær eru brothættar og viðkvæmar fyrir hnjaski. En þær eru svo algjörlega þess virði, fyrir mér er ein svona með góðum kaffibolla ávísun á himneska jólastund!

Hafrasmellir
Hafrasmellir

Hafrasmellir

– ca. 50 stk

kökur
100 g smjör
80 g haframjöl
1 egg
130 g sykur
1 msk hveiti (aðeins kúfuð)
1 tsk lyftiduft

kókoskrem
160 ml kókosmjólk (lítil dós)
100 g mjúkt smjör
190 g flórsykur
1-2 tsk vanillusykur

200 g suðusúkkulaði
kókosmjöl (má sleppa)

aðferð

 1. Hitið ofninn í 170°C.
 2. Bræðið smjörið og hrærið haframjölinu samanvið. Látið standa og kólna í smástund.
 3. Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
 4. Blandið öllu saman og setjið með teskeið á plötu með bökunarpappír (ath. að hafa gott bil, þær renna út!)
 5. Bakið í 7-8 mínútur (sjá frekari leiðbeiningar í ‘Tips og trikk’ hér fyrir neðan).
 6. Útbúið kremið: Byrjið á að hella kókosmjólkinni í lítinn pott. Látið suðuna koma upp og sjóðið á lágum hita í 15-20 mínútur eða þar til ca. helmingur hefur gufað upp.
 7. Hellið í litla skál, setjið í ísskáp og kælið alveg.
 8. Þeytið saman smjör, flórsykur og vanillusykur.
 9. Bætið kókosmjólkinni samanvið og þeytið þar til allt hefur blandast vel.
 10. Leggið kökurnar saman 2 og 2 með kremi á milli.
 11. Bræðið súkkulaðið, hjúpið helming hverrar köku og dýfið e.t.v. í kókosmjöl. Látið standa í kæli þar til súkkulaðið storknar.

Tips og trikk

 • Kökurnar geymast best í lokuðu íláti í kæli.
 • Athugið að kökurnar renna vel út svo það þarf í mesta lagi 1/2 tsk af deigi fyrir hverja köku (og meira að segja það magn gerir frekar stórar kökur). Eins og áður var minnst á er best að fylgjast með bökunartímanum; eftir ca. 7 mínútur í ofninum lyfta kökurnar sér aðeins upp en falla svo skyndilega og búbbla aðeins! Mjög fljótlega eftir það fara þær að taka lit og það gerist mjög hratt, mér finnst best að taka þær út um leið og kominn er smá litur á kantana.
 • Þegar kökurnar koma úr ofninum eru þær mjög mjúkar og teygjanlegar, best er að taka bökunarpappírinn af plötunni og láta standa á borði í smástund áður en kökurnar eru losaðar með þunnum spaða. Látið þær svo kólna á alveg sléttu yfirborði.
 • Það er nokkuð öruggt að kökurnar verða misstórar, reynið að para þær saman eftir svipuðum stærðum!
 • Það er líka mjög gott að hjúpa kökurnar með hvítu súkkulaði!
 • Það má líka alveg nota venjulegt vanillusmjörkrem í staðinn fyrir kókoskremið.

Hafrasmellir

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s