Hnetusteik

Ég held að það hafi verið jólin 2005 sem ég bar fram hnetusteik í fyrsta skipti á aðfangadagskvöld. Ég hafði fengið slump-uppskrift frá systur vinkonu minnar en einhverra hluta vegna hafði ég ekki fyrir því að prufukeyra steikina fyrir jól og finna út rétt hlutföll fyrir mig svo ég stóð í eldhúsinu hjá bróður mínum á aðfangadag og hafði ekki hugmynd um hvað ég var að gera eða hversu langan tíma það myndi taka. Útkoman var ekki mikið meira en allt í lagi en nógu góð til þess að hnetusteik er orðinn fastur jólaliður eins og venjulega á mínu heimili! Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég er löngu búin að breyta svo miklu og bæta við að það er lítið eftir af upprunalegu uppskriftinni, nema þá auðvitað helst hneturnar.

Það eru til alveg óendanlega margar gerðir af hnetusteik og misjafnt hvaða grænmeti fólk vill að leiki aðalhlutverkið á móti hnetunum. Mér finnst sætar kartöflur alveg meiriháttar góðar í steikina og þær passa líka alveg sérstaklega vel með ristuðum hnetum. Mér finnst líka gott að hafa hana bragðmikla, ekki sterka heldur bara vel kryddaða, það má líka á jólunum!

Hnetusteik er þó ekki bara jólamatur, hana má að sjálfsögðu bera fram á hvaða árstíma sem er!

Hnetusteik
Hnetusteik

Hnetusteik

– fyrir 3-4

350-400 g sætar kartöflur
1/2 kjúklinga- eða grænmetisteningur
30 ml heitt vatn (soðið)
150 g hnetur
1 lítill laukur
1 hvítlauksrif
4-5 hvítir sveppir
1 (vel rífleg) tsk tómatkraftur
1-2 tsk paprikuduft
1 tsk timjan
1/2 tsk cumin
1/4 tsk milt karrý
1/4 tsk chiliduft (má sleppa)
1 dl soðin brún hrísgrjón
2 eggjarauður
grófmalað salt og pipar

20 g mjúkt smjör
2-3 msk brauðrasp (t.d. Panko)
1 1/2 msk sesamfræ

aðferð

 1. Skerið sætu kartöflurnar í stóra bita og sjóðið þar til þær eru mjúkar. Kælið aðeins, afhýðið, stappið og setjið í skál.
 2. Setjið teninginn út í heitt vatnið og látið leysast upp.
 3. Ristið hneturnar á þurri pönnu, saxið eða malið gróflega og setjið í skálina með sætu kartöflunum.
 4. Saxið lauk og hvítlauk smátt, sneiðið sveppina og steikið í smá olíu eða smjöri þar til mjúkt (á ekki að brúnast). Bætið útí skálina.
 5. Hrærið paprikudufti, timjan, cumin, karrý og chilidufti samanvið tómatkraftinn og bætið útí skálina ásamt vatninu, brúnum hrísgrjónum og eggjarauðum. Hrærið vel saman og kryddið með klípu af grófmöluðu salti og pipar.
 6. Setjið í aflangt form (20 cm á lengd hentar vel). Hrærið saman smjör, brauðrasp og sesamfræ og stráið yfir hnetusteikina.
 7. Bakið við 175°C í ca. 45 mínútur.

Tips og trikk

 • Mér finnst best að nota blandaðar hnetur; 50 g af hverju, kashew, heslihnetum og valhnetum. Það er best að rista hverja tegund fyrir sig því þær þurfa mislangan tíma á pönnunni (og ef þið notið heslihnetur, látið þær þá kólna aðeins eftir ristun og fjarlægið dökka hýðið utanaf þeim).
 • Ég ‘púlsa’ hneturnar í matvinnsluvél, er löngu hætt að nenna að saxa þær á bretti! Þá þarf bara að passa að þær endi ekki of fínar, það er langbest að hafa smá ‘crunch’ í steikinni!
 • Í staðinn fyrir brún hrísgrjón má einnig nota t.d. bygg eða bulgur.
 • Eins og sést kannski á meðfylgjandi myndum voru þær ekki teknar við jólaborðið! Hversdags ber ég fram hrísgrjón og kalda eða heita sósu með og gjarnan ferskt salat. Á jólunum er svo boðið upp á aðeins fínna meðlæti en hnetusteikin ætti að passa með flestu þessu klassíska meðlæti.
 • Til að spara mér tíma á aðfangadag útbý ég hnetusteikina á Þorláksmessu og geymi hana í kæli yfir nótt. Tek hana svo út um kl 15 og læt hana standa á borði þar til ég set hana inn í ofn.
Hnetusteik
Hnetusteik

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s