Vanilluhnútar

Ég var að kíkja aðeins yfir síðustu pósta frá mér og eiginlega bara brá þegar ég sá að ég hef ekki sett inn neitt bakkelsi frá því fyrir páska. Til að bæta úr því er best að smella inn uppskrift sem er guðdómlega góð með helgarkaffinu.

Vanilluhnútar
Vanilluhnútar

Það vita allir að kanilsnúðar eru æðislegir. Mér finnst þeir líka fínir, en ég er bara ekki alltaf í stuði fyrir kanil svo mig hefur lengi langað að eiga skothelda uppskrift að vanillusnúðum. Eða hnútum, eins og þetta varð hjá mér. Þetta er búið að vera langur tilraunaferill og ég held að ég sé búin að prófa allavega 10 samsetningar af sykri og vanillu og jú, sumt var alveg við það að virka en það var ekki fyrr en ég datt niður á þessa útgáfu sem ég dansaði sigurdans á eldhúsgólfinu og lýsti því yfir að þetta væri uppskriftIN, með greini! Sætan í þessari kemur úr niðursoðinni mjólk, sem ætti að fást í einhverjum stórmörkuðum og asískum mörkuðum. Með því að sjóða hana með eggjarauðum kemur út nokkurs konar ‘custard’, sem ég er ekki alveg viss um hvað maður kallar á íslensku, búðingur kannski..  En þetta er allavega gott. Ó svo gott!
Þetta er aðeins meira umstang en kanilsnúðar en alveg þess virði. Ég notaði sama deig og ég nota venjulega í kanilsnúða og fer ekki ofan af því að það er alveg extra gott. En að sjálfsögðu er hægt að nota nánast hvaða snúðadeig sem er svo ef þú átt uppáhalds uppskrift þá endilega notaðu hana, þessi uppskrift snýst um fyllinguna.

Vanilluhnútar
Vanilluhnútar

Vanilluhnútar

ca. 18 stykki

2,5 dl mjólk
2 tsk þurrger eða 25 g pressuger
440 g hveiti (plús aðeins aukalega til að hnoða)
50 g sykur
1/2 tsk salt
80 g kalt smjör

fylling
2 dl niðursoðin mjólk (condensed milk)
3 eggjarauður
1 msk maísmjöl
fræ úr 1 vanillustöng

15g smjör, brætt
2 tsk vanilludropar

mjólk til að pensla

aðferð

 1. Velgið mjólkina aðeins í potti eða örbylgjuofni og blandið gerinu samanvið. Látið standa í ca. 5 mínútur á meðan þið fylgið næstu skrefum.
 2. Blandið þurrefnunum saman í skál, skerið smjörið í bita og ‘klípið’ það saman við þurrefnin þangað til áferðin er orðin þannig að blandan heldur nokkurn vegin lögun ef þið takið upp hnefafylli.
 3. Blandið þurrefnunum saman við mjólkina og gerið og hrærið vel saman með sleif.
 4. Hellið deiginu úr skálinni á hveitistráð borð og hnoðið vel.
 5. Takið deigið saman í kúlu og látið hefast í skál undir viskustykki í 40-60 mínútur.
 6. Á meðan deigið hefast, útbúið þá fyllinguna. Setjið niðursoðna mjólk, eggjarauður, maísmjöl og vanillufræ í pott og hrærið saman. Látið suðuna koma rólega upp og látið svo sjóða í 6-8 mínútur þar til blandan er þykk. Hrærið vel í allan tímann. Leggið til hliðar.
 7. Þegar deigið hefur hefast, setjið það þá á hveitistráð borð, hnoðið það aðeins til og fletjið svo út í rétthyrning sem er breiðari en hann er langur (sjá mynd fyrir neðan).
 8. Hrærið saman brætt smjör og vanilludropa og penslið yfir allt deigið.
 9. Smyrjið fyllingunni yfir ‘neðri’ helminginn af deiginu (sjá mynd fyrir neðan) og leggið efri helminginn yfir.
 10. Skerið í ca. 3 cm breiðar lengjur (ég nota pizzaskera!), snúið upp á hverja lengju 3-4 sinnum, vefjið í snúð og leggið á bökunarpappírsklædda plötu.
 11. Látið standa í 20-30 mínútur, penslið þá yfir með mjólk og bakið við 200°C í 10-12 mínútur.

Tips og trikk

 • Að sjálfsögðu er hægt að gera snúða úr þessu líka, þá er best að gera fyllinguna aðeins stærri svo það sé hægt að smyrja henni yfir allt deigið:

3 dl niðursoðin mjólk
5 eggjarauður
1 1/2 msk maísmjöl
fræ úr 1 1/2 vanillustöng

 • Deigið má líka hnoða í hrærivél. Hrærið þá með litlum deigkrók (þ.e. ef vélin er með tvær stærðir) í ca. 3-4 mínútur.
 • Myndavélin mín var eitthvað að stríða mér þegar ég bakaði þessa síðast svo mér tókst ekki að fá myndir af því hvernig maður setur hnútana saman. Ég tók þó eftir því um daginn að hún Berglind sem er með girnilegu síðuna Gulur, rauður, grænn og salt notaði þessa sömu aðferð á kanilsnúða og var með ágætis myndir svo ef ykkur vantar frekari leiðbeiningar má finna þær hér. Ég reyni svo að græja betri myndir næst þegar ég baka!
 • Vanilluhnútarnir geymast ekki mjög lengi, þeir eru sjúklega góðir á fyrsta degi, ágætir á öðrum degi en nokkurn vegin að syngja sitt síðasta á þriðja degi. Ég hef ekki prófað að frysta þá en geri fastlega ráð fyrir því að það auki geymsluþolið til muna. Frystið um leið og þeir hafa kólnað.
Vanilluhnútar að verða til
Vanilluhnútar að verða til
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s