Það er júróvisjónkvöld og þrátt fyrir að hvorugt heimalandið mitt hafi komist áfram verður nú samt að sjálfsögðu horft á keppnina og á júró gerir maður vel við sig í mat og drykk. Trítar sig aðeins, er það ekki?! Miðað við umræðuna á netinu sýnist mér að veitingar af mexíkóskum ættum verði vinsælar í kvöld og ég er alveg til í að stökkva á þann vagn; hér er eitt af því sem verður á boðstólnum í kvöld.

Það hljóta allir að hafa heyrt um eðluna núorðið. Mig langar að kynna fyrir ykkur litla, ferska frænda eðlunnar, sem á þessu heimili gengur undir heitinu gekkóinn! Gekkóinn er af tex-mex ættum og er samansettur úr þremur hlutum sem má líka alveg bera fram sem þrjár aðskildar ídýfur en það er hrein unun að skella þessu öllu saman og gekkóa sig í drasl!
Gekkóinn
svartbauna- og limedýfa
1 dós svartbaunir (um 250g af elduðum baunum)
2 tsk tómatkraftur
2 tsk þurrkað oregano
1 tsk cumin
1 tsk kóríanderduft
safi úr 1/2 lime
1/2-1 msk sýrður rjómi
rjómaostadýfa
100 g rjómaostur
100 g sýrður rjómi (5-9%)
2-3 tsk taco kryddblanda (úr pakka eða heimagerð, meira eða minna eftir smekk)
salsa
4 vænir tómatar
1/2 rauðlaukur
1 vorlaukur (græni hlutinn)
1 gulur chilipipar (eða annar, eftir smekk)
1-2 hvítlauksrif
tæp lúkufylli ferskur kóríander
2 msk sítrónusafi
1 msk limesafi
aðferð:
- Setjið hráefnin í baunadýfuna í matvinnsluvél eða blandara og maukið saman þar til mjúkt. Leggið til hliðar.
- Hrærið rjómaostinn þar til hann er mjúkur, blandið sýrðum rjóma og taco kryddblöndunni samanvið. Leggið til hliðar.
- Skerið tómatana frekar smátt og setjið í skál.
- Saxið rauðlauk, vorlauk og chilipipar smátt og setjið með tómötunum.
- Pressið eða rífið hvítlaukinn útí.
- Saxið kóríanderinn eins fínt eða gróft og þið viljið hafa hann og bætið í skálina.
- Hrærið allt vel saman með sítrónu- og limesafa.
- Smyrjið baunadýfunni í botninn á því íláti sem þið ætlið að bera gekkóinn fram í. Smyrjið rjómaostadýfunni þar ofaná og dreifið salsa yfir allt.
Tips og trikk
- Berið fram með nachos flögum og hafið helst góðan bjór við höndina! (þ.e. ef smekkur er fyrir því og tilskyldum aldri er náð)
- Mér finnst ágætt að saxa tómatana og láta þá sitja aðeins í sigti svo að mesti vökvinn leki af þeim.
- Salsað mætti líka alveg púlsa saman í matvinnsluvél en mér finnst það alltaf best þegar það er svolítið ‘chunky’!
- Ein svona uppskrift passar í tvö ferköntuð IKEA mót eins og á myndinni, 15x15cm.