Buffalo kjúklingasalat með gráðosta-skyrdressingu

Fyrir mörgum árum var ég Au Pair í Bandaríkjunum og smakkaði þar í fyrsta skipti svokallaða Buffalo-kjúklingavængi, sem eru vel þekktir í Ameríkunni sem klassískur skyndibiti. Einhvern tíma sat ég í hópi annarra Au Pair stelpna og nokkrar höfðu pantað sér körfu af vængjum þegar ein í hópnum, frá Suður-Ameríku ef ég man rétt, sagðist hafa þurft að hugsa sig aðeins um þegar hún heyrði um Buffalo vængi í fyrsta skipti, því henni vitandi eru buffalóar alls ekki með vængi! Auðvitað áttaði hún sig á því að þetta voru kjúklingavængir um leið og hún sá hvernig þetta leit út og að sjálfsögðu er rétturinn kominn frá bænum Buffalo í New York fylki, en heitir ekki eftir dýrinu!

Mér finnst Buffalo vængir rosa góðir. Sósan sem er notuð á þá er svolítið sterk, en það er líka notað edik í hana sem gerir bragðið virkilega sérstakt. Til að milda bragðið aðeins er borin fram köld sósa með, yfirleitt annað hvort ‘ranch’ dressing eða gráðostasósa. Þó ranch sé klassísk amerísk salatdressing þá finnst mér gráðosturinn betri með buffalo bragðinu svo ég ákvað að taka hann með inn í uppskrift dagsins og útbjó salatdressingu úr skyri og gráðosti. Það kom virkilega vel út og skyr er eitthvað sem má alveg gera tilraunir með í almennri matargerð, það er ekkert sem segir að skyr þurfi endilega að vera sætt!

Og þar sem það er svolítið af beinum í vængjum, þá eru notaðar bringur í þetta salat. Ég svindla líka aðeins og nota tilbúna kryddblöndu, því þessi uppskrift snýst meira um salatið heldur en kjúklinginn sjálfan, en ef þið eigið góða Buffalo-sósu uppskrift þá skulið þið endilega nota hana!

Buffalo kjúklingasalat með gráðosta-skyrdressingu
Buffalo kjúklingasalat með gráðosta-skyrdressingu

Buffalo kjúklingasalat með gráðosta-skyrdressingu

2 kjúklingabringur
1/2 pakki McCormick Buffalo kryddblanda (fæst t.d. í Kosti)

2 hausar Romaine salat
75 g ferskt spínat
2 sellerístilkar
2 vorlaukar (græni hlutinn)
120 g steinlaus vínber
2 þroskuð avocado

gráðosta-skyrdressing
1 dl hreint skyr
20 g mildur gráðostur
1/2 skallotlaukur, smátt skorinn
1/2 hvítlauksrif, rifið eða pressað
1/2 tsk dill
1/2 tsk steinselja
1/4 tsk cumin
skvetta af sítrónusafa
klípa af salti

aðferð

  1. Skerið kjúklingabringurnar í bitastóra teninga. Kryddið með Buffalo kryddblöndunni og bakið í eldföstu móti við 190°C í 15-20 mínútur, eða þar til bitarnir eru eldaðir í gegn.
  2. Skerið Romaine salatið og spínat gróflega og setjið í skál ásamt smátt skornu selleríi og vorlauk.
  3. Skerið vínberin í tvennt og avocado í bita og setjið helming af hvoru með í skálina.
  4. Hrærið saman öllu sem þarf í dressinguna og blandið við salatið í skálinni.
  5. Toppið með vínberjum, avocado og kjúklingi.

Tips og trikk

  • Fyrir þá sem vilja meira gráðostabragð er hægt að setja hreinan gráðost með í salatið, það kemur mjög vel út.
  • Ef skyrið er of þykkt má hræra það út með smá mjólk eða mögrum sýrðum rjóma.
  • Það er hægt að bera þetta salat fram bæði með heitum kjúklingi og köldum, bæði betra!
Buffalo kjúklingasalat með gráðosta-skyrdressingu
Buffalo kjúklingasalat með gráðosta-skyrdressingu

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s