Mangóskyrterta

Verandi Íslendingar í útlöndum erum við skötuhjúin stundum spurð útí íslenskar matarvenjur og jafnvel beðin um sýnishorn. Við höfum boðið vinum upp á lambakjöt (slær alltaf í gegn), harðfisk (mjög misjafnar móttökur), íslenskt brennivín (allir til í eitt skot!) og flatkökur með hangikjöti, sem virðist einhverra hluta vegna ekki eiga upp á pallborðið hjá Dananum!

Mangóskyrterta
Mangóskyrterta

Nú eru samt allir Danir farnir að þekkja skyrið okkar góða og þar sem auglýsingaherferðir hérna hafa gengið út á það að það sé íslensk afurð þá er fólk forvitið um það hvað við gerum við skyr. Og ég verð að segja að samanborið við hugmyndaauðgi Dananna stöndum við Íslendingar þeim langt að baki þegar kemur að vöruþróun og frumleika hvað varðar skyrið. Hér er er hægt að fá skyrís og skyrsósur, svona fyrir utan sætt og bragðbætt skyr í hefðbundnu- og drykkjarformi og framleiðendur annarra vara eru meira að segja farnir að vísa í skyrið. Þannig er til dæmis hægt að fá múslíblöndu sem er markaðssett sérstaklega til að setja út á skyr og nú um daginn keypti ég hrá-remúlaði, þar sem leiðbeiningarnar voru að hræra það út í mæjónes eða skyr.

Það er þó eitt sem Dönunum hefur ekki ennþá dottið í hug að markaðssetja og það eru skyrtertur. Þeir eru samt komnir á bragðið og það er hægt að finna margar fínar uppskriftir á dönskum matreiðslusíðum. Þessi er þó bara mín eigin samsetning sem ég bauð uppá um daginn þegar við buðum í „íslenskt” matarboð; hægeldað lambalæri með tilbehør og skyrterta í eftirrétt. Auðvitað er ekki mjög íslenskt að nota mangó, en það passar rosalega vel með skyrinu og útkoman er virkilega frísk og góð terta sem fer vel á hvaða sumarborði sem er!

Mangóskyrterta
Mangóskyrterta

Mangóskyrterta

botn
200 g hafrakex
50 g möndlur
1 msk sykur
80 g brætt smjör

skyrfylling
100 g hvítt súkkulaði
500 g hreint skyr
3 dl rjómi
2 msk flórsykur
fræ úr 1 vanillustöng

mangómauk
1 mangó
1 msk sykur

aðferð

botn

 1. Malið kex og möndlur í matvinnsluvél.
 2. Hrærið sykur og smjör samanvið.
 3. Þrýstið í botninn á 23 cm springformi og látið standa í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

skyrfylling

 1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni, kælið aðeins og hrærið samanvið skyrið.
 2. Þeytið rjómann með flórsykri og vanillufræjum.
 3. Blandið skyrinu og rjómanum varlega saman og hellið yfir botninn. Látið standa í kæli þar til fyllingin hefur stífnað vel.

mangómauk

 1. Afhýðið mangóið og maukið aldinkjötið í matvinnsluvél.
 2. Setjið maukið í pott ásamt sykri og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, þar til það er farið að þykkna.
 3. Kælið vel og smyrjið varlega yfir kökuna í forminu.

Tips og trikk

 • Það má vel nota vanilluskyr í staðinn fyrir hreint skyr og sleppa þá vanillufræjunum.
 • Mér finnst gott að klæða mótið með bökunarpappír, þá er auðveldara að losa kökuna úr því.
 • Gætið þess að velja vel þroskað mangó, það ætti að gefa aðeins eftir þegar þrýst er á hýðið.
Mangóskyrterta - hér er best að fara mjög varlega!
Mangóskyrterta – hér er best að fara mjög varlega!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s