Hægeldaður spicy kjúklingur (barbacoa)

Ég biðst afsökunar á fjarveru minni síðustu vikur, en hún helgast bæði af sumarfríi, ferðalögum, gestakomum, húsnæðisleit og undirbúningi flutninga. Já, það er mikið að gerast á heimilinu um þessar mundir svo eldhúsið hefur setið aðeins á hakanum.

Og talandi um eldhús, í tæplega tvö og hálft ár höfum við búið í ágætis íbúð sem þó hefur þann ókost að eldhúsið í henni er frekar óhentugt fyrir matargerðaráhugafólk. Það er lítið og illa skipulagt en ég hef reynt að gera mitt besta með það sem ég hef að vinna með. Í ágúst flytjum við í nýtt húsnæði og efst á listanum var að sjálfsögðu að finna stað með betra eldhúsi. Það tókst heldur betur og ég hlakka mikið til að að elda og baka í ný-uppgerðu eldhúsinu í litla sveitahúsinu sem við fundum okkur! Ekki nóg með það, heldur er þarna stærðarinnar garður og í honum er ég búin að finna epla-, peru-, plómu- og kirsuberjatré, rifs- og sólberjarunna, jarðarberjaplöntur og rabbabara og mig grunar að þarna séu líka hindberjarunnar, en á eftir að staðfesta það. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það verður mikið gert úr svona flottum hráefnum! Ætlunin er svo auðvitað að rækta okkar eigið grænmeti og kryddjurtir, nú þegar við höfum pláss til þess og það er líka á planinu að fá okkur hænur og verða þannig nokkurn vegin sjálfbær um margt sem annars þyrfti að kaupa inn. Svo þið sjáið að það er mikið ævintýri framundan og vonandi tekst mér að koma einhverju af því til skila til ykkar í gegnum texta og myndir hérna á blogginu.

En að uppskrift dagsins. Barbacoa er eldunaraðferð sem er ættuð úr Karíbahafinu og Mið-ameríku, og merkti upprunalega kjöt (oft var notað kjöt af höfði dýra) sem var hægeldað yfir opnum eldi eða á kolum sem voru grafin í jörð. Í nútímanum er auðvitað ekki mikið um að eldað sé á þann hátt svo í staðinn notaði ég steypujárnspottinn minn góða, sem er frábær í hægeldun og gefur kjötinu meyra og safaríka áferð. Ég mæli sterklega með því að elda þennan rétt í steypujárns- eða keramikpotti, en ef hvorugur er til, má e.t.v. elda réttinn á lokaðri pönnu og stytta eldunartímann, þó ég ábyrgist ekki að útkoman verði jafn góð. Að sjálfsögðu má líka nota rafmagns-hægsuðupott og laga eldunartímann að pottinum.

Ég skrapp í stutta ferð til vinkonu minnar um daginn og eldaði þennan rétt fyrir viðstadda og ég held að mér sé óhætt að segja að hann hafi slegið í gegn! Það er reyndar pínu tímafrekt að gera þennan, en hann er samt einfaldur í eldun og undirbúningi og er algjörlega þess virði að skella í hann á góðum degi.

Hægeldaður spicy kjúklingur (barbacoa)
Hægeldaður spicy kjúklingur (barbacoa)

Hægeldaður spicy kjúklingur (barbacoa)

– fyrir 2

4 kjúklingalæri með skinni og beinum
salt + pipar

2 dl vatn
3 msk tómatkraftur
1 msk chipotle & garlic kryddsósa (frá Heinz)
2 msk rauðvínsedik
safi úr 1/2 lime
1 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
1 rauður chili
1/2 kjúklingateningur
2 tsk oregano
1 1/2 tsk cumin
2 lárviðarlauf

aðferð

  1. Kryddið kjúklinginn með salti og pipar og látið standa í nokkrar mínútur.
  2. Hrærið saman vatn, tómatkraft, kryddsósu, rauðvínsedik og limesafa.
  3. Skerið rauðlauk, hvítlauk og chili í frekar stóra bita og setjið í pottinn. Hellið vökvanum yfir ásamt oregano og cumin og kveikið undir.
  4. Leggið lærin ofaní með kjöthliðina niður og setjið lárviðarlaufin í vökvann.
  5. Látið suðuna koma upp á góðum hita, lækkið svo alveg niður og látið sjóða undir loki á lægsta hita sem heldur suðu í tvo klukkutíma. Snúið lærunum eftir ca. 30 mínútur.
  6. Að tveimur tímum liðnum, takið þá lærin upp úr pottinum og rífið kjötið af beinunum (gott er að nota tvo gaffla í verkið). Notið sigti eða gataspaða til að fjarlægja alla stóra bita úr soðinu, setjið svo kjötið aftur í pottinn og látið sjóða án loks þar til vökvinn hefur gufað upp.

Tips og trikk

  • Berið fram í tortilla kökum með bökuðum rauðlauk, grænu káli, ferskum kóríander og sýrðum rjóma. Maískólfar eru líka frábær viðbót við máltíðina.
  • Rauðlaukur missir gjarnan fallega rauð-fjólubláa litinn við eldun. Til að koma í veg fyrir það er gott að bæta við einhverju bragðmildu sem inniheldur sýru þegar hann er bakaður. Með þessum rétti finnst mér koma mjög vel út að nota (sykurlaust) eplamauk, og sker þá rauðlauk í fjórðunga, smyr þá með eplamaukinu og legg álpappír yfir á meðan þeir bakast, þá koma þeir litsterkir og fallegir úr ofninum!
  • Chipotle & garlic kryddsósan gefur réttinum bæði auka hita til viðbótar við chilipiparinn og líka örlítið reykt bragð sem setur punktinn yfir i-ið. Ef hún finnst ekki má nota aðra góða chili-kryddsósu og 1/2 tsk af reyktri papriku.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s