Þýsk rifsberjabaka (Träubleskuchen)

Þá erum við flutt og eldhúsið mitt farið að taka á sig mynd. Þessir fyrstu dagar í nýja húsnæðinu eru búnir að vera alveg yndislegir, hér er svo mikil ró og kyrrsæld og maður finnur alveg hvernig batteríin endurhlaðast á methraða, þrátt fyrir annir við að koma okkur fyrir. Annars erum við ekki komin lengra en svo að myndavélin mín hefur ekki ennþá komið upp úr kassa, svo ég verð að láta símann duga til að mynda fyrir þessa færslu!

Það hefur líka verið ævintýri út af fyrir sig að ganga um garðinn okkar. Við eigum mikla vinnu fyrir höndum að hreinsa ótal Rifs-131428beð af öllum stærðum og gerðum og koma því fyrir sem við ætlum að gera. En það sem er allra skemmtilegast er að við erum ennþá að finna ný ber og ávaxtatré og runna og nú hafa stikilsber og vínberjaviður bæst á listann yfir það sem hefur fundist hingað til. Fyrsta uppskeran úr garðinum var þó frekar hefðbundin, en ég skellti mér út einn morguninn í vikunni og tíndi eitt og hálft kíló af rifsberjum. Meirihlutann af þeim setti ég í frysti, enda nóg að gera hjá okkur ennþá við að koma öllu í stand svo hlaup- og saftgerð verður að bíða betri tíma. Ég stóðst þó ekki mátið að geyma hluta berjanna og skella í þessa frábæru böku með helgarkaffinu. Hún er tiltölulega einföld en virkilega bragðmikil og skemmtileg, sérstaklega fyrir þá sem fíla súra rifsberjabragðið!

Þýsk rifsberjabaka (Träubleskuchen)
Þýsk rifsberjabaka (Träubleskuchen)

Þýsk rifsberjabaka (Träubleskuchen)

botn
120 g hveiti
85 g kalt smjör, skorið í litla bita
40 g sykur
1 eggjarauða

brauðrasp, ca. hnefafylli

fylling
3 eggjahvítur
135 g sykur
350 g rifsber
50 g fínt saxaðar möndlur
fræ úr 1/2 vanillustöng

aðferð

 1. Setjið hveiti, smjör, sykur og eggjarauðu í skál og blandið þar til deigið loðir saman. Ef það er of þurrt, bætið þá 1 msk af vatni samanvið.
 2. Hnoðið saman í kúlu, fletjið aðeins og vefjið í plast. Kælið í minnst klukkustund, mest í sólarhring.
 3. Fletjið deigið út og leggið í bökuform með 23-24 cm þvermáli.
 4. Stráið brauðraspi í botninn og stingið nokkrum sinnum með gaffli. Setjið formið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.
 5. Hitið ofninn í 175°C.
 6. Þeytið eggjahvíturnar þar til mjúkir toppar fara að myndast. Bætið sykrinum útí og þeytið áfram þar til stíft.
 7. Blandið rifsberjum, möndlum og vanillu varlega samanvið.
 8. Hellið fyllingunni yfir botninn og sléttið vel úr yfirborðinu. Bakið neðarlega í ofninum í 45 mínútur. Leggið álpappír ofan á bökuna eftir ca. 30 mínútna bakstur til að koma í veg fyrir að hún dökkni of mikið.

Tips og trikk

 • Bökudeig er best að hnoða saman með köldum fingrum (gott að láta kalt vatn renna á hendurnar eða halda utanum poka af t.d. frosnu grænmeti í smástund) eða nota flatan spaða til að ‘skera’ það saman.
 • Það er alveg eðlilegt að deigið springi aðeins út við kantana þegar það er flatt út. Ýtið rifunum saman aftur og jafnið kantinn, þetta hættir á endanum!
 • Leyfið bökunni að kólna alveg áður en hún er borin fram (gjarnan með ís eða þeyttum rjóma!)
Þýsk rifsberjabaka (Träubleskuchen)
Þýsk rifsberjabaka (Träubleskuchen)
Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s