Bakað Buffalo pasta

Eftir frábæran september þar sem hitastigið hefur varla farið niður fyrir 15 gráðurnar, er sko komið haust hérna megin við hafið. Ég fer út með hundinn í göngutúr á morgnana og nú er ég komin frá því að vera í órenndri hettupeysu yfir í að vera í lopapeysu og með trefil og bráðum þarf að grafa í geymslunni eftir vetrarúlpunum okkar. Svona gengur þetta víst allt saman og í hringrás eldhússins er komið að kulda-eldamennskunni með girnilegum ofnréttum og matarmiklum súpum sem ylja vel innanfrá!

Undanfarið hef ég verið með eitthvað æði fyrir bökuðum pastaréttum. Eitt það besta sem kom út úr því var þessi réttur, sem er æðislegur á köldu haustkvöldi, kannski á grámyglulegum mánudegi þegar mann langar mest til að kúra sig ofan í sófann með einhvern algjöran snilldar ‘comfort food’. Þessi er nefnilega svolítið mikið svoleiðis!

Mér finnst þessi líka vera ágætis pása frá hefðbundnum tómat- og/eða rjómasósum sem maður endar oft á að gera af gömlum vana með pasta.

Bakað Buffalo pasta
Bakað Buffalo pasta

Bakað Buffalo pasta

-fyrir 2

pastaskrúfur eða penne í magni fyrir 2

200 g hakk
1/2 laukur
2 hvítlauksrif
1-2 sellerístilkar
1/2 rauð paprika
1/3 pakki Buffalo kryddblanda frá McCormick (fæst í Kosti)
100 g rjómaostur
3 msk sýrður rjómi
1 dl mjólk (e.t.v. meira)
1-2 dl rifinn mozzarella ostur
1 dl gráðostur, rifinn eða skorinn í bita

olía til steikingar

aðferð

  1. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum.
  2. Skerið lauk, hvítlauk, sellerí og papriku smátt og steikið á pönnu þar til það fer að mýkjast.
  3. Bætið hakkinu útá, kryddið með Buffalo blöndunni og eldið kjötið í gegn.
  4. Hrærið rjómaost, sýrðan rjóma og mjólk útá pönnuna. Bætið við mjólk ef þið viljið þynnri sósu.
  5. Setjið pastað í eldfast mót og stráið mozzarella og gráðosti yfir það.
  6. Hellið kjötsósunni yfir og bakið í 190°C heitum ofni í 15-20 mínútur.

Tips og trikk

  • Það eru sjálfsagt til aðrar Buffalo kryddblöndur og ekkert nauðsynlegt að nota þá frá McCormick. Ég bendi bara sérstaklega á hana þar sem hún er sú eina sem ég þekki og veit fyrir víst að fæst á Íslandi, enda er úrvalið í verslunum hérna í Danmörku allt annað en Íslendingar eiga að venjast.
  • Mér finnst best að nota mildan gráðost, Blå Castello eða álíka, en fyrir þá sem vilja sterkari er um að gera að nota uppáhaldsostinn!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s